131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:58]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna liggur á þessu máli? Það liggur á vegna þess að nú er ákveðið millibilsástand. Á þó nokkrum svæðum hafa fleiri en einn aðili sótt um rannsóknarleyfi. Það vantar nægilega skýrar reglur um hvernig skuli tekið á málum í þeim tilfellum. Þess vegna finnst mér mikilvægt að ekki líði langur tími án þess að fram fari rannsóknir af hálfu orkufyrirtækjanna á svæðunum sem hér um ræðir.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál verður ekki afgreitt fyrir jól, eða mér finnst ekki miklar líkur á því, það er orðið stutt til jóla. Þannig að við skulum sjá til hve snemma á nýju ári við getum orðið með þessa lagasetningu.

Pólitískt verkefni, segir hv. þingmaður, að leggja línurnar fyrir framtíðina, og það er hárrétt. En ég held, að það sé þó mikilvægt að við höfum þekkingu og sjónarmið inni í nefndinni frá orkufyrirtækjunum í gegnum Samorku. Þetta er nokkuð stór nefnd en engu að síður tel ég að ekki sé ofgert í þeim efnum þó að Samorka, orkufyrirtækin, eigi þar þrjá fulltrúa. Hvað varðar skilgreiningu á eignarrétti fer það samkvæmt lögum. Ég man það ekki nákvæmlega til að fara yfir í stuttu máli, en landeigendur mega nota um 10 lítra á sekúndu til heimilisnota, bústarfa og annars slíks. Ég held að þar sé ekki um að ræða að ákvæði vanti í lög.