131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, hæstv. ráðherra hefur ekki mörg orð um þessi atriði sem ég nefndi. Gott og vel, hún verður að fá að hafa það þannig en það er afar slæmt og beinlínis afleitt að hæstv. ráðherra skuli ekki fjalla hér um ákveðin atriði sem við erum búin að vera að ræða hér, þingmenn, í nokkra klukkutíma meðan þetta mál hefur verið til umfjöllunar.

Þá vil ég t.d. nefna framtíðarstefnu í orkumálum. Gerðar voru athugasemdir við það hvernig nefndin sem hæstv. ráðherra hugsar sér að skipa verði samsett, tíu manna nefnd þar sem gert er ráð fyrir einum fulltrúa frá hverjum af fimm stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, þremur frá hagsmunaaðilum framkvæmdaraðila í þessum efnum, þ.e. Samorku, og svo tveimur sem hæstv. iðnaðarráðherra skipar án tilnefningar.

Ætlast hæstv. iðnaðarráðherra í alvöru til þess að nefnd sem svona verður samsett setji fram einhverjar alvörutillögur um það hvernig framtíðarstefnu í nýtingarmálum orkunnar og auðlinda landsins verði háttað? Er það alvara hæstv. ráðherra að svona nefnd geti sinnt því hlutverki? Ég verð að segja að ég tel ekki svo vera.

Svo get ég gagnrýnt hæstv. ráðherra fyrir það að staglast hér á því hvernig við séum að nýta hér hreina og endurnýjanlega orku. Hæstv. ráðherra verður að fara að skilja að virkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun geta ekki talist sjálfbærar. Þær teljast ekki sjálfbærar samkvæmt neinum mælikvörðum sem gefnir hafa verið út á alþjóðavísu og eru viðurkenndir af samtökum og stofnunum vítt og breitt um heiminn, vísindastofnanir þar með taldar. Virkjun sem eyðileggur umhverfi sitt óafturkræft í þeim mæli sem Kárahnjúkavirkjun gerir framleiðir ekki hreina orku. Hún framleiðir ekki endurnýjanlega orku.