131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:28]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau atriði sem hv. þingmaður spyr um varða t.d. eignir, ég held að hann sé að tala um 21., 22., 23. og 24. gr., en þar er rætt um þinglýstar eignir. Þar er fjallað um hvernig tekið skuli á undantekningum frá rannsóknar- og nýtingarleyfum.

Hvað varðar fasteignareiganda þá þarf hann rannsóknarleyfi til að eiga möguleika á nýtingarleyfi, en honum er hins vegar í raun heimilt að rannsaka án rannsóknarleyfis, en til þess að eiga möguleika á nýtingu, þá er rannsóknarleyfi grundvöllur að því að nýtingarleyfi sé gefið út.

Annað atriði er þegar ekki næst samkomulag um verðmæti, eða réttara sagt um gjald fyrir afnot af auðlind við fasteignareiganda eða jarðareiganda, þá þarf að koma málum í þann farveg að niðurstaða náist í málum. Ég held að ég beini því til nefndarinnar að fara betur yfir þau mál. Þegar frumvarpið var í vinnslu í iðnaðarráðuneytinu gátum við ekki séð að þarna væri um vandamál að ræða. En nefndirnar eru upplagðar til að fara yfir mál eins og þetta, til að leita af sér allan grun, en að mínu mati eru þau ákvæði sem þarna koma fram fullnægjandi.