131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:30]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek það gilt að nefndin fari vel ofan í málið því mér sýnist að það séu spurningarmerki við þetta. En hæstv. ráðherra hafði ekki tíma til að svara spurningunum um hvort þeir sem bíða á bekknum, hvort umsóknir þeirra sem liggja fyrir núna muni ekki falla niður og að þeir þurfi að sækja um aftur og hvort hæstv. ráðherra finnst úrræðin fullnægjandi í frumvarpinu til að taka á því ef margir aðilar sækja um þann dag sem lögin taka gildi, ef og þegar það gerist.

Mér finnst þetta mikilvægt vegna þess sem ég hef svo oft sagt og ætla ekki að fara að endurtaka hér um að stjórnvöld eru alltaf á flótta undan því að skera úr um nýtingarrétt á auðlindum með útboðum eða öðrum slíkum markaðsaðgerðum ef á þarf að halda.