131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:44]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Málefni sparisjóðanna hafa komið oft upp hér á hv. Alþingi á undanförnum árum. Það er svo sem ekkert að undra miðað við þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á íslenskum fjármálamarkaði. Sparisjóðirnir standa nú frammi fyrir tvenns konar vanda. Annars vegar er aukin samkeppni, það er engum blöðum um það að fletta að aukinn styrkur viðskiptabankanna þriggja gefur þeim forskot í samkeppninni við sparisjóðina. Hins vegar er það órói og deilur innan sparisjóðanna um eignarhald og framtíðarsýn. Þær deilur eru nú aðallega uppi í SPRON og Sparisjóði Hólahrepps eins og kom fram hjá hv. þingmanni.

Deilur um hvert sparisjóðir skuli stefna hafa staðið lengi yfir innan sparisjóðafjölskyldunnar. Þær mögnuðust upp í SPRON-málinu hinu fyrra sumarið 2002. Þá kvað Fjármálaeftirlitið upp þann úrskurð að heimilt væri að eiga viðskipti með stofnbréf á yfirverði. Þótt ekki hafi verið vefengt að Fjármálaeftirlitið hafi komist að lögfræðilega réttri niðurstöðu er ljóst að þegar Alþingi samþykkti árið 1985 að framsal stofnfjárbréfa væri heimilt með ákveðnum skilyrðum var það aldrei ætlun löggjafans að stofnbréf gengju kaupum og sölum á almennum markaði. Stjórnarskráin heimilar hins vegar löggjafanum ekki að leiðrétta þetta. Þróuninni verður ekki snúið við.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji þörf á lagabreytingu til að tryggja að stofnfjáreigendur geti ekki tekið til sín eigið fé sparisjóðanna og hvort skerpa ætti betur á reglum um 5% atkvæðahámark. Um fyrra atriðið vil ég nefna að löggjöfin hefur smátt og smátt gert stofnfjárbréf að vænlegri kosti fyrir fjárfesta, nú síðast árið 2001. Stofnfjáreigendur hafa a.m.k. síðustu 10 árin eða svo fengið góða raunarðsemi af stofnfé sínu. Það er Tryggingarsjóður sparisjóða sem ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Ákvörðun sjóðsins er eins konar öryggisventill fyrir sparisjóðina enda hefur tryggingarsjóðurinn verulegra hagsmuna að gæta í því að útgreiðsla sjóðsins tefli ekki hag einstakra sparisjóða í tvísýnu.

Hlutverk tryggingarsjóðsins er samkvæmt lögum að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi sparisjóðanna þannig að sú kenning sem sett var fram í Morgunblaðinu um helgina, að unnt sé að ná yfirráðum í tryggingarsjóðnum og ákveða síðan himinháa arðgreiðslu, brýtur í bága við lög og gengur augljóslega ekki upp.

Varðandi 5% atkvæðahámark er ég mjög fylgjandi því að það sé vel tryggt að tengdir aðilar fari ekki saman með meira en 5% atkvæða. Það er vel þekkt alþjóðlegt vandamál að erfitt er að setja lagaákvæði sem spyrða fyrirtæki og einstaklinga saman. Viðskiptaráðuneytið er um þessar mundir að skoða ákvæði um tengsl milli aðila í vinnu við nýjar yfirtökureglur og það er ekki útilokað að svipað ákvæði gæti átt við um sparisjóði. Ekki verður þó hugað að slíkri vinnu fyrr en athugun ESA á því hvort ákvæði um 5% atkvæðahámark brjóti í bága við EES-samninginn lýkur.

Að síðustu spyr hv. þm. um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sparisjóðum. Ég tel að Fjármálaeftirlitið sé mjög vel í stakk búið til að hafa eftirlit með fjárhagslegu öryggi sparisjóða og öðrum ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Það er hins vegar ekki hlutverk eða verkefni Fjármálaeftirlitsins að bregaðst við ef sjálfstæði sparisjóða er ógnað eða búa svo um hnúta að sparisjóðir í landinu verði 24 um aldur og ævi. Það eru sparisjóðirnir sjálfir sem verða að móta framtíð sína.