131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:48]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þingið kom saman í fyrra til að afgreiða lög um sparisjóði var markmiðið fyrst og fremst að tryggja að á fjármálamarkaðnum væri fjórði öflugi aðilinn, þ.e. við hlið viðskiptabankanna. Markmiðið var að tryggja eins mikla samkeppni á þessum markaði og kostur var. Það er því afar sérstakt að núna skuli vera gerð aðför að fjórða aflinu á þessum markaði, enn og aftur af forustu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Menn hafa séð að undanförnu hvað er til að mynda fengið með því að hafa þrjá aðila á olíumarkaðinum. Þess vegna skiptir miklu máli að fleiri öflugir aðilar séu á markaðnum. Til þess kom Alþingi saman í fyrra að breyta þessum lögum, til að tryggja þetta, og sparisjóðunum er ætlað það hlutverk að vera öflugur aðili á markaðnum enda er opnað á það í þeirri lagabreytingu að sparisjóðirnir geti sameinast, þeir geti orðið stórir og þeir geti eflt sig á eigin forsendum til að tryggja fjórða aflið á markaðnum. En hvað gengur mönnum til að reyna að brjóta niður þetta afl? Hvert er markmiðið, hver hefur hag af því? Eru það bankarnir eða eru menn að reyna að komast yfir eigið fé sparisjóðanna með viðbótararðgreiðslu? Er það græðgisvæðingin sem hér hefur algerlega tekið yfirhöndina?

Ég spyr, virðulegi forseti: Ef menn ætla að halda áfram í þeim farvegi að brjóta samstöðu sparisjóðanna til að tryggja þetta afl er þá ekki eðlilegt þegar kemur til arðgreiðslna að jafnhátt hlutfall fari til samfélagsins og til stofnfjáreigenda? Það mundi a.m.k. tryggja það að þau græðgissjónarmið sem virðast ráða för hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar í tilraunum hans til að grafa (Forseti hringir.) undan sparisjóðakerfinu næðu ekki ná fram að ganga.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.) Hv. þm. gætir ætíð orða sinna.

(Forseti (HBl): Hv. þm. hefur ekki orðið. Ég bið hv. þingmann að gæta velsæmis í þingsölum.)