131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:51]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Sparisjóðirnir námu hér land fyrir meira en 100 árum. Það var eitt af mörgu góðu sem hefur komið frá Danmörku. Þeir komu og hófu starfsemi sína í fátæku landi og hafa tekið virkan þátt í því að byggja upp þetta land frá fátækt til auðlegðar. Löggjafinn hefur hvað eftir annað sýnt hug sinn til sparisjóðanna, í tvígang núna á stuttu tímabili, síðast fyrir einu ári síðan. Það var ljóst í þverpólitískri afstöðu manna að löggjafinn vildi tryggja eins vel og hann gæti að þetta form, lánastarfsemi, gæti haldið velli. Það er alveg ljóst.

Hins vegar liggur fyrir, virðulegi forseti, að það er vandséð hvernig löggjafinn á núna að koma inn í þetta mál. Sparisjóðirnir hafa fullt frelsi til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem af þeim stafar. Þeir geta sameinast, þeir eiga að reyna að finna sér rekstrargrundvöll í því harða og erfiða viðskiptaumhverfi sem þeir búa við. Ég held að enginn annar en þeir geti ákveðið hvernig þeir vilja bregðast við. Ef þeir eru trúir uppruna sínum og muna hvaðan þeir koma ætti ekki að vera erfitt fyrir þá að vita hvert þeir eru að fara. Sparisjóðirnir geta staðið heils hugar utan um stofnanir sínar og ættu að hafa fulla burði til þess að tryggja áframhaldandi farsælt uppbyggingarstarf fyrir land og lýð eins og þeir hafa gert í meira en 100 ár.