131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:53]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Enn á ný eru átök um eignarform að sparisjóðunum og ljóst að völdin eru eftirsóknarverð að mati margra. Svo virðist a.m.k. sem sumir stofnfjáreigendur sparisjóðanna horfi hýru gróðaauga til varasjóðanna og að þar megi ná út fé, samfara t.d. sameiningu sparisjóða ef verðmætin eru sett á rétt verðmat og jafna þarf eignaraðild að ákveðnum hlutföllum. Varla fer á milli mála hver vilji meiri hluta Alþingis var um það að stofnfjáreigendur ættu ekki að hagnast óeðlilega á því að hafa gerst stofnfjáreigendur umfram arð af stofnfé sínu. Það var almenn skoðun að það væru viðskiptamenn sparisjóðsins sem byggt hefðu upp eiginfjár- og eignastöðu sjóðanna. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvort ráðherra telji að gera þurfi lagalegar ráðstafanir til að tryggja betur en nú er gert að stofnfjáreigendur geti ekki tekið til sín eða hagnast með óeðlilegum hætti á eigin fé sparisjóðanna öðru en stofnfé.

Eins og jafnan áður segja stofnfjáreigendur að engin áform séu uppi um að reyna að ná tökum á sjóðum sparisjóðanna, m.a. SPRON. Nýverið varð samt yfirtaka á Sparisjóði Hólahrepps og ekki hægt annað en að draga þá ályktun að þar sé komin uppskrift að vina- og fjölskyldueignarformi að sparisjóðum eða að bankarnir, t.d. KB-banki, verði virkir í yfirtöku á SPRON. Því er eðlilegt að ráðherra svari því hvort þörf sé á því að skerpa á lagaákvæðum um að enginn geti farið með meira en 5% atkvæða í sparisjóði. Á að takmarka að stærri eignarhlutur sé gerður virkur með því að dreifa honum til nokkurra skyldra eða tengdra einstaklinga eða tengdra fyrirtækja? Þarf ekki að huga betur að því að vilji Alþingis sem var svo skýr síðasta haust nái að vinna í verki eins og að var stefnt?