131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:57]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Enn koma sparisjóðir til umræðu og er í sjálfu sér ekki skrýtið í ljósi hinnar gagnmerku sögu þeirra yfir 100 ár þar sem sparisjóðir hafa verið kjölfestan í atvinnuuppbyggingu og þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki í svo mörgum byggðarlögum víða um land, ekki síst í ljósi þeirrar sérstöðu þeirra að hagnaðinum er ætlað að renna til samfélagsverkefna í heimabyggð hvers og eins sparisjóðs sem og hefur gengið eftir. Það er sérstaða þeirra og það sem hefur skapað hina öflugu markaðsstöðu þeirra víða um land.

Í hinum miklu sviptingum á fjármálamarkaði að undanförnu, harðnandi samkeppni og glæsilegri útrás þriggja stórra banka má taka undir það sem hér kom fram, þeir hafa að sumu leyti verið að ná ákveðnu forskoti á íslenskum fjármálamarkaði í ljósi stærðar sinnar. Í þessu umhverfi er auðvitað ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu einstakra sparisjóða og er mjög mikilvægt að þeir bregðist við í þessu nýja umhverfi sínu. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa mestar áhyggjur af innanhússátökum í hverjum og einum sparisjóði. Þau hafa alltaf átt sér stað og munu eiga sér stað. Mikilvægt er að hafa í huga hver staða þeirra er í ljósi smæðar sinnar og stærðar hinna þriggja öflugu banka og hvernig sparisjóðir muni þróast í því umhverfi. Þeir verða að bregðast við og ein leiðin er auðvitað sú, eins og rætt hefur verið um, að þeir sameinist í eina sparisjóðakeðju sem starfi á grundvelli upphaflegra hugsjóna sinna eða taki upp formlegt samstarf við aðra aðila.

Aðalatriðið er hins vegar, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, að sparisjóðirnir sjálfir taki frumkvæði í því og efli sig innan frá í samstarfi við aðra.