131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[11:02]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Málefni sparisjóðanna eru enn á ný komin til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta mál upp.

Á síðasta þingi var samþykkt frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar kvað m.a. á um að eigandi stofnfjár í sparisjóði, hversu stór sem hann er, hefði ekki meira atkvæðavægi en 5%. Þar kemur einnig fram að stofnfé á ekki vera meira virði en sem nemur uppreiknuðu verði þess.

Nú er ljóst að verið er að kaupa stofnfé í sparisjóði á hærra verði og stórir og sterkir aðilar leggja mikið undir til þess að ná í völd í viðkomandi stofnun. Að mínu mati munu þeir á síðari stigum setja pressu á að þeir öðlist meiri réttindi en 5%. Samt sem áður er til önnur leið sem byggir á því að hægt sé að hækka arðgreiðslur meira en eðlilegt er og því getur viðkomandi aðili haft verulegar tekjur af fjárfestingu sinni.

Ég sem mikill sparisjóðamaður, starfsmaður til 16 ára í Sparisjóði Vestmannaeyja og núverandi stofnfjáraðili, hef áhyggjur af þessari þróun. Sameining sparisjóða er hið besta mál ef þeir verða áfram sparisjóðir og starfa sem slíkir, verða ekki yfirteknir af stóru viðskiptabönkunum og verða sjálfstætt afl á bankamarkaðnum við hlið þeirra stóru.

Sparisjóðir á landsbyggðinni hafa oft verið kallaðir hornsteinar heima í héraði og þeir hafa sinnt ákveðinni samfélagsskyldu við eflingu heimabyggðar sinnar og atvinnulífsins. Ef sameiningar og breytingar eru gerðar á forsendum sparisjóðanna er það eingöngu styrkur. Sparisjóðakerfið hrynur ef fleiri en einn af stóru sparisjóðunum fara út úr því en hættan liggur í því að fleiri fylgi í kjölfarið ef einn sparisjóður fer. Þeir hafa haft Sparisjóðabankann sem sinn seðlabanka, ef svo má að orði komast, og þess vegna hafa minni sparisjóðir getað þjónað töluvert betur í sinni heimabyggð með Sparisjóðabankann sem bakland.

Sparisjóðirnir þjóna sennilega best hinum dreifðu byggðum landsins og þjóna þannig að hluta öðrum markaði en aðrar bankastofnanir. Ábyrgð stofnfjáraðila er mikil því að þeir eru ekkert annað en trúnaðarmenn heima í héraði og það er óeðlilegt að þeir hagnist mikið á því að selja stofnfjárhlut sinn á yfirverði sem jafnframt getur orðið til þess að gamla ungmennafélagshugsunin hverfi og geti bitnað á því samfélagi sem sparisjóðurinn tilheyrir.