131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[11:11]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmönnum mörgum sem hér hafa talað að það skiptir máli að sparisjóðirnir séu fjórða aflið á markaðnum og þar með eigum við fjölbreyttari flóru en ella. Eins og ég sagði áðan verða þeir sjálfir að móta framtíð sína. Ég endurtek það sem ég sagði, Tryggingarsjóður sparisjóða ákveður hámarkshlutfall arðgreiðslna og þess vegna gengur sú kenning sem sett var fram núna um helgina í einu dagblaðanna ekki upp, nema þá eins og mér fannst hv. málshefjandi ýja hér að að völdin verði tekin af sparisjóðunum en þeir hafa að sjálfsögðu stjórn á Tryggingarsjóði sparisjóða. Ég mun ekki beita mér fyrir því að þar á verði gerð breyting.

Ég vil enn einu sinni hvetja sparisjóðina til að leggja deilur til hliðar og vinna saman að því að efla þetta fjórða afl á fjármálamarkaði. Það skiptir mjög miklu máli því að banka- og fjármálamarkaður er þeim mun sterkari eftir því sem þar ríkir meiri fjölbreytni. Ég tel algjörlega augljóst að sparisjóðirnir verði við þær aðstæður sem núna eru á fjármálamarkaði að hugsa sinn gang og móta stefnu sína með það í huga að þeir geti áfram verið sterkt afl á markaðnum.

Hvorki viðskiptalífinu né fjármálamarkaðnum er stjórnað úr viðskiptaráðuneytinu, ég held að allir geri sér grein fyrir því. Við höfum ekki það hlutverk að segja til um hvað hver gerir innan laga. Þess vegna getur löggjafinn ekki mótað þessa stefnu. Það verða sparisjóðirnir að gera sjálfir og ég treysti þeim fyllilega til þess.