131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:30]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það hvort frumvarpið sé sett fram meðvitað með þeim forsendum sem þar eru. Eins og hv. þm. fór yfir tel ég að svo sé ekki. Forsendurnar byggja auðvitað á spá sem unnin er miðað við þær forsendur sem liggja fyrir. Síðan gerist það að nýjar spár koma fram og byggja á öðrum forsendum o.s.frv. en ég hygg að menn reyni að vinna þessa vinnu eftir bestu getu miðað við þann grundvöll sem menn hafa á hverjum tíma.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég legg áherslu á að við munum að sjálfsögðu fara yfir þessi mál frekar þegar þar að kemur á næsta ári og ég hlakka til að fjalla um þau mál með hv. þm.