131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:01]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvað hv. þingmaður vildi sagt hafa með þessari löngu ræðu. Hann sagði fjárlagafrumvarpið andvana fætt vegna þess að þar kæmi fram að skera þyrfti niður stórlega opinbera þjónustu, félagslega þjónustu og í heilbrigðismálum. Þar er þó aukning um 8%. Jafnframt sagði hann að Seðlabankinn teldi aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki nægar. Átti þá að skera niður meira? Átti það að vera minna eða meira?

Jafnframt gerði hv. þingmaður þau orð að sínum sem seðlabankastjóri sagði í viðtali, að skattalækkanir hefðu áhrif. Hann vitnaði líka í hann og sagði að aðhaldsaðgerðir hins opinbera væru ekki nægjanlegar. Á sama tíma segir hann frá því og eyðir löngu máli í að kannski séu engar skattalækkanir heldur vegi alls konar aðrar hækkanir ríkisins upp á móti því.

Þá er mér spurn, herra forseti: Hvað verður með þensluáhrifin ef ein króna kemur á móti annarri? Er þá verið að þenja út eða draga saman? Eða hvaða stefnu vill hv. þingmaður taka í ríkisfjármálunum? Telur hann að draga eigi meira saman í ríkisútgjöldunum eða telur hann að eigi að auka ríkisútgjöldin? Telur hann að þensluáhrif verði af því sem gert er eða ekki? Telur hann að það eigi að auka skatta eða lækka skatta? Þetta eru allt mjög forvitnilegar spurningar, eftir að hafa hlustað á hv. þingmann tala í 45 mínútur eða lengur og vitna stanslaust í nýútkomna skýrslu um peningamál. Hann heldur því fram að allt sé rangt í núverandi spám og hefur á hornum sér að Seðlabankinn spái meiri einkaneyslu. Af hverju ætti að vera meiri einkaneysla? Er hann hræddur um að kaupgjald fari úr böndunum, eða vill hann fá að segja nokkur orð um hver hættan er og hvers vegna?