131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:04]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sparar aldrei spaugsyrðin. Það er vel að menn geti skemmt sér örlítið yfir jafnalvarlegri umræðu og umræða um fjárlög er. Það er afar sérkennilegt þegar hv. þingmaður talar eins og það sé engin hætta á ferðum og ekkert sem skipti máli annað en það hvað ég hafi sagt í ræðu minni, hvort ég hafi vitnað í menn og hvort ég hafi gert orð þeirra að mínum eða ekki.

Við höfum haldið því fram, alveg frá því að þessi umræða hófst í haust, að meginvandinn sé sá að menn hafi ekki náð tökum á áætlunargerðinni. Við bendum á menn hafi verið með rangar forsendur, viðurkenni ekki vanda sem er til staðar og þess vegna hafi yfirleitt verið svo stór munur á fjárlögum og ríkisreikningi. Menn hafa ekki getað horft á staðreyndirnar heldur verið í draumum og teiknað glansmyndir.

Þegar Seðlabankinn leggur fram töflur sínar, sem ég fór yfir til að sýna fram á hve langt forsendur fjárlaganna væru frá því sem talið var, þá blasir við að áætlunargerðin er ekki marktæk, því miður. Ég veit að hv. þingmaður er algerlega sammála mér um að eitt hið albrýnasta í þensluástandi eins og er hjá okkur og virðist stefna í að verði enn meira er að ríkisfjármálin þurfa að vinna gegn verðbólgu.

Það var megininntak ræðu minnar, hv. þingmaður, hvaða leiðir við gætum farið til að viðhalda stöðugleikanum. Ég hélt, herra forseti, að ég ætti það sameiginlegt með hv. þingmanni að vilja varðveita stöðugleikann.