131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:09]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson spurði í tvígang hv. þm. Einar Má Sigurðarson spurninga og fékk ekki svar.

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli á því að hv. þingmaður er að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns en ekki andsvar við andsvari.)

Fundarstjórn forseta. (Gripið fram í: Þú ert ekki í borgarstjórn núna.)

(Forseti (GÁS): Hv. þingmaður er í andsvari og forseti vekur athygli hans á þeirri venju í þinginu að veitt eru andsvör við ræðu hv. þingmanns en ekki við síðari andsvörum annarra aðila. Þannig eru þingsköpin.)

Virðulegi forseti. Ég hef verið hér frá síðustu kosningum og tekið þátt í mörgum andsvörum. Hér er algerlega ný túlkun hjá hæstv. forseta, að maður megi ekki minnast á og vekja athygli á því að hér hafi ekki verið svarað spurningum er vægast sagt sérkennilegt. En kannski þarf að koma viðkomandi aðila til bjargar, ég veit það ekki.

Ég hef hins vegar ákveðnar spurningar sem ég vil spyrja hv. þingmann. Ég veit ekki hvort ég fæ leyfi forseta til að vekja athygli á því að hann hafði ekki svarað spurningum áður en látum það liggja á milli hluta. Ég skal ekki vekja athygli á því að hv. þingmaður svaraði ekki spurningunum síðast.

Hvað sem því líður er ljóst að allir þeir sem hlustuðu á ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar velkjast ekki í vafa um að hv. þm. telur að hér sé allt á hinn versta veg og sá sem þekkti ekki aðstæður mundi meta það sem svo að við værum í mikilli kreppu og vandræðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Telur hann að það hafi náðst einhver árangur í efnahagsmálum á undanförnum árum?

Í öðru lagi af því að hér hafa menn alla vega í orði kveðnu haft áhyggjur af skuldum heimilanna: Telur hv. þingmaður að það sé ómögulegt, þegar menn lækka skatta, að viðkomandi einstaklingar sem fá skattalækkun geti greitt skuldir sínar?

Í þriðja lagi talar hv. þingmaður um skattahækkanir og nefnir m.a. afnám sérstakra ívilnana vegna séreignar lífeyrissparnaðar. Afnám sérstakra ívilnana vegna séreignarlífeyrissparnaðar, ég vildi gjarnan fá svar við því hvernig hv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu ásamt þingflokki Samfylkingarinnar að hér sé um skattahækkun að ræða.