131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:15]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er vandi á höndum þar sem það liggur alveg fyrir að ég hef í andsvörum mínum, eins og hæstv. forseti las og vitnaði í, verið að vísa í mál ræðumanns. Nú er hins vegar túlkun hæstv. forseta sú að ekki megi vekja athygli á því að ræðumaður svari andsvari.

Það liggur hreint og klárt fyrir að ég spurði ræðumanninn þriggja spurninga. Ég verð að spyrja hæstv. forseta: Má ég vekja athygli á því að hann svaraði bara einni af þremur? (Gripið fram í: Það er skammtaður tími.) Er það svo? Þetta er auðvitað mjög sérstakt svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Það liggur hins vegar hreint og klárt fyrir að þessi stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, hefur talað um hættu fram undan hvert einasta ár og það er frægt þegar formaður Samfylkingarinnar talaði um að allt væri að fara norður og niður út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það hefur einfaldlega aldrei gengið eftir. Það er hins vegar ágætt að hv. þingmaður, ég vek athygli á því, gekkst við því sem öllum er ljóst að hér hefur náðst gríðarlegur árangur í efnahagsmálum. En hann svaraði ekki spurningu tvö og þrjú. (EMS: Hvað var þrjú?) Hvað var þrjú? segir hann. Hann vildi augljóslega ekki svara númer tvö, en númer þrjú var einfaldlega að hér hafa menn staðið upp, þingmenn Samfylkingarinnar, og talað um skattahækkanir. Eitt af því sem nefnt var er afnám sérstakra ívilnana vegna séreignarlífeyrissparnaðar. (Gripið fram í.) Já, nákvæmlega. Og hvernig komast menn að þeirri niðurstöðu, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, að slíkt sé skattahækkun? Svo væri gjarnan gott að fá svar við spurningu tvö og ég ætla alls ekki að vekja athygli á því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson svaraði ekki spurningum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar en hann spurði að því í tvígang.