131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:20]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar en ég sit í fjárlaganefnd fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vísa til fyrra nefndarálits um fjárlagafrumvarpið við 2. umr. þar sem farið er sundurgreint í einstaka liði fjárlagafrumvarpsins.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur nú til lokaafgreiðslu. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umr. er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 296,3 milljarðar kr. Engar breytingartillögur liggja fyrir frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar nú þrátt fyrir að ljóst sé að útgjöld ríkissjóðs séu vanmetin á mörgum sviðum í frumvarpinu. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 306,4 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður um 10,1 milljarður kr. Því miður hefur reynsla undanfarinna ára kennt okkur að þegar árið verður loks gert upp getur reyndin verið önnur.

Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því sem ég kom fram með í andsvari við hv. formann fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, um að niðurskurður á samgönguáætlun liggur ekki fyrir við umræðuna nú. Meginbreytingar þessa fjárlagafrumvarps eru m.a. að skera niður samgönguáætlun um 2 milljarða kr. á næsta ári. Mér finnst skipta miklu máli og er raunar alveg sjálfsagt að tillögur um hvar sá niðurskurður eigi að koma niður liggi fyrir og þingið taki afstöðu til þess niðurskurðar við afgreiðslu fjárlaga því annars verður það ekki gert. Ég vil því inna forseta eftir því hvort hægt sé að koma þeim skilaboðum til hæstv. samgönguráðherra að hann upplýsi um tillögur ráðuneytisins hvar niðurskurður í samgöngumálum á að bera niður þannig að tillögur ráðuneytisins liggi fyrir fyrir lok umræðunnar. Ég vil biðja forseta að koma þeim óskum á framfæri.

Í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans sem kom út í gær, spáir bankinn að verðbólga verði 3,4% á næsta ári. Þetta er meiri verðbólga en bankinn hefur áður spáð. Í Peningamálum kemur m.a. fram eftirfarandi, með leyfi forseta: „Frá því í september hafa töluverðar breytingar orðið á verðbólguhorfum. Flest bendir til þess að innlend eftirspurn muni vaxa enn hraðar en þá var talið líklegt. Umfang stóriðjuáformanna hefur vaxið, einkum á næsta ári, bæði vegna áforma Norðuráls og breytinga á tímasetningum framkvæmda Fjarðaráls. Þá hefur samkeppni á milli lánastofnana á sviði fasteignaveðlána magnast eftir að bankarnir brugðust við auknum umsvifum Íbúðalánasjóðs með því að bjóða einstaklingum fasteignaveðlán og endurfjármögnun eldri lána á lægri vöxtum en áður. Aðgangur almennings að lánsfé er eftir þessar breytingar orðinn mun greiðari en áður og vextir verðtryggðra fasteignaveðlána lægri en um langt skeið. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Útlán til einstaklinga hafa aukist hröðum skrefum og verð stórra fasteigna hefur hækkað skarpt. Loks hafa áform um lækkun skatta á næstu árum verið staðfest, án þess að nákvæmlega hafi verið skilgreint hvar skuli skera niður útgjöld á móti. Því verður að telja verulegar líkur á að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt leggst þetta á eitt um að ýta undir meiri þenslu og þar með meiri verðbólguþrýsting …“

Herra forseti. Þetta var tilvitnun í skýrslu Seðlabankans, Peningamál, sem birt var í gær. Í stuttri umsögn greiningardeildar KB-banka frá því í gær um þetta útspil Seðlabankans segir svo, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn hækkaði vexti um 1% samhliða því að tilkynna um að gjaldeyriskaupum verði hætt í árslok. Ljóst er að þessi ákvörðun mun þrýsta gengi krónunnar upp í nýjar hæðir og hún sýnir að bankinn hyggst beita genginu með ákveðnum hætti í miðlunarferli peningamálastefnunnar til þess að reyna að slá á þenslu og draga úr verðbólguvæntingum. Eins og nú er málum komið er aðeins um 20–30% af skuldum heimila og fyrirtækja í íslenskum breytilegum vöxtum. Meiri vaxtamunur mun gefa enn frekari hvata til erlendrar lántöku, en þó skyldi það tekið með í reikninginn að eftir því sem gengið rís hærra vakna einnig væntingar um gengislækkun sem vegur á móti. Enn fremur bendir hin skarpa hækkun til þess að Seðlabankinn hyggist reyna að þrengja að lausafjárstöðu bankakerfisins og þannig hægja á lánsfjárframboði. Hættan við þessa leið sem nú hefur verið valin er þríþætt. Í fyrsta lagi má nefna að sú gengishækkun sem hækkun stýrivaxta kallar fram er í rauninni frestun á verðbólgu sem mun koma fram þegar gengið leiðréttist. Í öðru lagi skapa frekari erlendar lántökur hættu á fjármálaóstöðugleika þegar fleiri aðilar hérlendis taka gengisáhættu. Í þriðja lagi er þrengt verulega að útflutningsatvinnuvegunum sem gæti tafið vöxt útflutnings þegar til framtíðar er litið.“

Lýk ég þar með tilvitnun í stutta umsögn greiningardeildar KB-banka um þessar aðgerðir Seðlabankans.

Ég held að hér sé vert að staldra við og huga á hvaða vegferð við erum. Seðlabankinn hækkar vexti um 1%, er kominn upp í um 8,25% stýrivexti. Hvar lendir þessi vaxtahækkun? Hún lendir fyrst og fremst á lánum til einstaklinga og minni fyrirtækja hér á landi sem eru með rekstrarfé sitt bundið í innlendum skammtímalánum. Meginhluti þess lánsfjár og þess fjármagns sem hér er í umferð er því á allt öðrum vöxtum. Langtímaskuldir eru á föstum vöxtum og erlendar lántökur eru gengistryggðar og bera erlenda breytilega vexti. Því kemur þetta stýritæki Seðlabankans mjög harkalega niður á afmörkuðum hópi þessa samfélags, minni fyrirtækjum og einstaklingum sem eru með lán sín í innlendum gjaldeyri og á skammtímavöxtum innan lands. Er það sá hópur sem við erum að reyna að ná til með þessum vaxtaákvörðunum?

En gengisáhrifin láta ekki á sér standa. Það er ljóst að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna, sem vísað er til í umsögn Seðlabankans, ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér svo öflugt fyrir, eru gríðarleg og fórnarkostnaður mikill fyrir allt annað atvinnulíf í landinu. Fyrir nokkrum missirum var gengi Bandaríkjadals 110 kr. en þegar þetta var skrifað í gærkvöldi var gengið 65 kr. Í dag er það komið niður í 63 kr. Það hefur lækkað um 40%, um nærri helming á örfáum mánuðum. Hvaða atvinnulíf, útflutningsgreinar, getur starfað við slíkan breytileika á gengi íslensku krónunnar á gengi erlendra gjaldmiðla? Gengisvístalan var liðlega 130 fyrir um einu og hálfu ári síðan eða svo og þá var talið að vísitala upp á 125–130 væri eðlileg miðað við að halda jöfnuði í inn- og útflutningi og eðlilegri samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna. Þegar þetta nefndarálit var skrifað í gær var gengisvísitalan komin niður í 118 en í morgun, núna fyrir hádegið, var hún komin niður í 115.

Hvaða atvinnulíf getur staðið af sér svona gríðarlega breytingar á genginu, breytingar sem hafa þau einu áhrif að skerða samkeppnisstöðu útflutningsins? Og mundi þó margur hyggja að okkur væri þörf á að styrkja eða efla útflutningsgreinarnar og ná meiri útflutningstekjum. En efnahagsaðgerðirnar koma langharðast og nánast eingöngu niður á hinum almennu útflutningsgreinum landsins.

Mér er spurn: Hefur enginn áhyggjur af þessu? Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra? Breytingar á innan við tveimur árum: Dollarinn úr 110 kr. niður í 63 kr., gengisvísitalan úr 130 og niður í 115. Hvaða útflutningsgrein stendur þetta af sér? Sjávarútvegurinn, stendur hann þetta af sér? Við vonum það en ekki léttir þetta stöðu hans. Sprotafyrirtæki, ferðaþjónustan, þau fyrirtæki og það atvinnulíf sem hefur einmitt skaffað meginfjölda landsmanna atvinnu og þjóðinni útflutningstekjur. Nei, nú skal ráðist á það. Efnahagsaðgerðir og atvinnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að ryðja þeim atvinnugreinum burt.

Það þarf að skapa rými fyrir stóriðjuframkvæmdirnar svokölluðu, það þarf að skapa rými fyrir þær í íslensku atvinnulífi og verður ekki gert nema ryðja öðru atvinnulífi burt. Gengisvísitala upp á 115, dollari upp á 63. Íslenskur útflutningur mun trauðla ráða við svona gríðarlegar sveiflur á gjaldeyrinum í útflutningi sínum. Ég ítreka spurningu mína: Hafa menn ekkert áhyggjur af þessu, ætla menn bara að láta þetta yfir sig ganga?

Ofan á þetta grípur ríkisstjórnin til skattalækkana sem eru fáránlegar við þessar aðstæður þegar verið er að beita harkalegum aðgerðum til að halda niðri einhverju sem menn kalla þenslu, þenslu sem er til komin vegna atvinnustefnu núverandi ríkisstjórnar. Þá skal beita skattalækkunum sem auka á þenslu og valda óstöðugleika í efnahagskerfinu, ég tala ekki um við þær aðstæður sem við búum við. Þær krefjast þess að ríkisútgjöld verði skorin niður á móti til þess að þær hafi ekki bein áhrif og það er gert.

Megininntak efnahagsaðgerða ríkisins á næsta ári felast í um 2 milljarða kr. niðurskurði á samgönguáætlun, skertum fjárveitingum til heilbrigðismála, til ríkisháskólanna og framhaldsskólanna. Innritunargjöld í háskóla eru aukin, svo og komugjöld á heilbrigðisstofnanir. Þá eru skornar niður fjárveitingar til markaðsstarfs ferðamála. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andvíg þessum áherslum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og telur þann mikla fórnarkostnað sem stóriðjustefna hennar krefst ógna varanlega hinu almenna atvinnulífi og velferðarkerfi þjóðarinnar.

Mikill munur er á skattstefnu ríkisstjórnarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Skattstefna ríkisstjórnarinnar gengur út á að þeir fái mest sem hafa mest fyrir og þeir fái minnst sem hafa minnst. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir slíkum áherslum. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gengur út á meiri jöfnun og sanngjarnari skattlagningu og flokkurinn hefur í því sambandi lagt fram tvö frumvörp á Alþingi.

Í fyrsta lagi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Frumvarpið felur í sér þá einföldu breytingu á lögunum að rýmka heimildir þeirra til álagningar útsvars um eitt prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarpið er flutt í beinum tengslum við boðuð áform ríkisstjórnarinnar um að lækka álagningu tekjuskatts um sama hundraðshluta. Ástæða frumvarpsins er sú einfalda staðreynd að ekki verður lengur vikist undan því að grípa til ráðstafana til að bæta stöðu sveitarfélaganna. Teljist ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem vissulega má deila um, hlýtur því að vera nærtækast að færa þær tekjur a.m.k. að einhverjum hluta til sveitarfélaganna.

Í öðru lagi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Samkvæmt þessu frumvarpi mundu tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast talsvert og má ætla að þær yrðu rúmir 10 milljarðar kr. eða sem svarar aukningu upp á rúmlega 3 milljarða kr. Þessar tillögur miða að því að dreifa skattbyrðum með sanngjarnari hætti en nú er gert. Þannig mundu þeir sem eru með smásparnað ekki greiða neinn fjármagnstekjuskatt, en nú eru allir rukkaðir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill jafnframt með þessu frumvarpi bregðast við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa.

Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum ítrekað lagt áherslu á að munurinn í skattlagningu á því fjármagni sem einstaklingar afla sér með arði eða vöxtum á fjármagni eða hlutafé annars vegar og launatekjum hins vegar eigi ekki að vera svona mikill. Samræmið eigi að vera mun meira, ekki eigi að gera greinarmun á því hvaðan tekjurnar koma heldur að allir beri hlutfallslega sinn hlut í velferðarkerfi þjóðarinnar í gegnum skattheimtuna.

Þingmenn Vinstri grænna lofuðu því fyrir kosningar að efla og styrkja velferðarkerfið og hlífa lægstu tekjum við skattheimtu. Stórfelldar almennar skattalækkanir á efnameira fólki og fyrirtækjum, sem aðrir flokkar lofuðu og börðust fyrir, voru ekki á loforðalista Vinstri grænna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir á nauðsyn þess að Alþingi hafi sjálfstæða ráðgjafa í efnahagsmálum. Núna verður þingið að reiða sig á útskýringar sérfræðinga framkvæmdarvaldsins en það er fjármálaráðuneytið sem gefur út endurskoðaða þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Nauðsynlegt er að Alþingi hafi eigin stofnun sem starfar með því í efnahagsmálum og við fjármálastjórn ríkisins. Sem dæmi um stöðu þingsins má nefna að efnahags- og viðskiptanefnd skilaði gagnslausu nefndaráliti um tekjuhlið frumvarpsins og efnahagsforsendurnar, en nefndinni er skylt að skila ítarlegu áliti eftir vandlega skoðun. Enda hafði hún ekki leitað annað en í fjárlagafrumvarp ráðuneytisins sem var dreift í upphafi þings. Síðdegis í gær gaf Seðlabankinn út umsögn sína um horfur í efnahags- og peningamálum. Spá bankans um ýmsar grunnforsendur efnahagsþróunarinnar á næsta ári er frábrugðin því sem fjárlagfrumvarpið byggist á.

Ég vil aðeins víkja að alvarlegri skuldastöðu heimilanna sem áður hefur verið tekin upp á Alþingi. Fram kemur í nýútkominni skýrslu BSRB, „Skuldir íslenska þjóðarbúsins“, að á síðustu tveimur áratugum hafi skuldir íslenskra heimila vaxið gríðarlega. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ef litið er yfir þróunina frá árinu 1980 má sjá að í upphafi tímabilsins voru skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum um 20% en voru rúmum tveimur áratugum síðar komnar í um 180% og hefur hlutfallið því nífaldast yfir tímabilið. Þrátt fyrir að á síðustu áratugum hafi skuldir heimila aukist í nær öllum Evrópulöndum, hefur aukningin óvíða verið eins mikil og hjá íslenskum heimilum.“

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill þó í þessu sambandi vekja athygli á hratt vaxandi gengisbundnum lánum heimilanna. Bankarnir keppast nú við að ná til sín viðskiptavinum, veðum þeirra og íbúðum og knýta þá fasta í framtíðarviðskiptum. Innlend lán á bundnum vöxtum fela í sér verulega áhættu fyrir bankana. Þess vegna virðast þeir í auknu mæli ýta einstaklingum út í að taka gengistryggð lán á erlendum vöxtum. Með lánveitingu af því tagi fær bankinn sitt en áhætta hans verður í lágmarki. Samkvæmt Seðlabankanum voru gengistryggðar skuldir heimilanna í júní sl. 10,6 milljarðar kr., í september 16,1 milljarður kr. og í októberlok 23,5 milljarðar. Gríðarlega ört vaxandi hluti af skuldum heimilanna, nýjum lántökum heimilanna er gengistryggður og með breytilegum erlendum vöxtum.

Það er rétt að átta sig á því hvað þetta getur þýtt. Við búum jú við lágmarksgengi og lágmarksvexti erlendis, hámarksgengi er þannig að krónan stendur hátt og erlend mynt lágt. Við lítils háttar breytingar á genginu, sem væntanlega gæti orðið á þá lund að íslenska krónan félli í verði, það búast allir við því að á næsta eða þarnæsta ári falli íslenska krónan gagnvart erlendri mynt. Það getur þýtt verulega hækkun á erlendum skuldum. Sömuleiðis eru vextir erlendis í lágmarki og er búist við því að vextir erlendis muni hækka innan tíðar.

Vaxtabreyting erlendis úr 2–4% og gengislækkun um 10% munu þýða rúmlega 50% aukningu á mánaðarlegri greiðslubyrði. Með húseign sína veðsetta upp í topp eiga heimilin litla möguleika á að standa af sér snöggar breytingar á gengi eða vöxtum erlendis. Annar minni hluti veltir fyrir sér siðferðisreglum bankanna. Hafa bankarnir sett sér einhverjar siðferðisreglur í samskiptum sínum og viðskiptum við viðskiptavinina? Hver er ábyrgð bankanna á ráðgjöfinni sem þeir veita viðskiptavinum sínum? Við þekkjum það að einstaklingar sem leita ráða hjá bankanum eru nánast ofurseldir þeim ráðum sem bankinn gefur þeim, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr einstaklingum í því sambandi er þetta oft raunin. Alla vega er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort ráðgjöf bankanna geti verið hlutlaus þegar hagsmunir bankans snúast mest um að fá einstaklinginn til að taka hluta af lánum sínum tryggð í erlendu gengi og erlendum vöxtum. Áhætta bankans er langminnst við slíkar lánveitingar. Er öruggt að ráðgjöf bankanna geti verið hlutlaus gagnvart viðskiptavininum í slíkum tilfellum? Vonandi, en maður hlýtur samt að spyrja sig hver staða viðskiptavinarins er í slíkum viðskiptum.

Það hvílir því gríðarleg siðferðisleg ábyrgð á bönkunum, starfsmönnum þeirra og ráðgjöfum þegar þeir ræða við viðskiptavini sína um framtíðarráðstöfun á tekjum og eignum þeirra kannski til lífstíðar. Það verður ekki að fullu brýnt fyrir mönnum að gæta þarf að sér báðum megin við borðið.

Frú forseti. Ljóst er nú að ríkisstjórnin ætlar ekki að uppfylla samkomulagið við Öryrkjabandalagið frá því í mars 2003 um aldurstengdar örorkubætur. Orð heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum haustið 2003, þar sem hann staðfesti að loforðið við öryrkja hefði ekki verið efnt að fullu, að það þyrfti að áfangaskipta samkomulaginu og afgangurinn kæmi til greiðslu ári síðar, hafa reynst orðin tóm. Ríkisstjórnin öll og ekki þó síst Framsóknarflokkurinn, sem sló sér upp á loforðum til öryrkja fyrir síðustu alþingiskosningar, ber mesta ábyrgð á því að ekki skuli vera staðið við samkomulagið.

Ef vikið er að stöðu heilbrigðismálanna er ljóst að mikill fjárskortur er hjá mörgum sjúkrastofnunum í landinu. Þannig má sjá á minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu um stöðu stofnana í A-hluta í lok septemer sl. að neikvæð staða 20 heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana var samtals tæpar 994 millj. kr. Þá er fjárhagsvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss mikill, og handahófskenndur niðurskurður hefur gengið mjög nærri starfsemi hans á árinu. Ljóst er að ef þessar sjúkrastofnanir eiga að vinna á fjárhagsvanda sínum þýðir það einungis meiri niðurskurð sem svo aftur kemur niður á þjónustu þeirra.

Tillögur þingmanna Vinstri grænna um framlög til að mæta brýnni þörf heilbrigðisstofnananna voru felldar af meiri hlutanum. Ljóst er því að margar heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir miklum fjárhagsvanda og skerðingu á þjónustu.

Ef litið er til menntamála mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð hækkun skráningargjalda í opinberum háskólum. Áfram skal tryggja jafnrétti til náms. Það má ekki þrengja svo að opinberum háskólum að þeir þurfi í meira mæli en nú er að taka upp aðgangstakmarkanir. Fjárhagsstaða margra framhaldsskóla er slæm, og nauðsynlegt er að ljúka endurskoðun á reiknilíkani sem greitt er eftir. Þá er ótækt að láta framhaldsskólana bera stöðugt uppsafnaðan halla á milli ára. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að slíkt sé ekki heimilt samkvæmt fjárreiðulögum. Það gengur ekki lengur að láta skólana bera gamlan fjárhagsvanda sem m.a. er til kominn vegna gallaðs reiknilíkans og tregðu stjórnvalda á að viðurkenna fjölda nemenda. Minni hluti fjárlaganefndar flytur breytingartillögu sem miðar að því að bæta nokkuð úr brýnni þörf ríkisháskólanna og framhaldsskólanna.

Ef litið er til umhverfismála vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð efla stofnanir sem starfa á sviði náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu. Ljóst er að margar stofnanir sem undir umhverfisráðuneytið heyra eiga við rekstrarvanda að etja eins og nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar um Náttúrufræðistofnun Íslands sýnir en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld eiga tveggja kosta völ til að leysa alvarlegan rekstrar- og fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að laga starfsemi hennar að núverandi fjárhagsramma með verulegum niðurskurði í rekstri eða að auka fjárveitingar til hennar svo að hún geti sinnt þeim verkefnum sem henni eru falin í lögum með svipuðum hætti og undanfarin ár.“

Vísað er til fyrri hluta nefndarálits 2. minni hluta um fjárlagafrumvarpið. Þar er rakið hvernig umhverfismálin og náttúruverndin eru stöðugt hornrekur í áherslum þessarar ríkisstjórnar.

Ef litið er til sveitarfélaganna sem hér hafa svo mjög verið rædd á þessu hausti, þ.e. erfiður fjárhagur þeirra, er staðreynd að fjárhagur margra sveitarfélaga hefur verið afar erfiður undanfarin ár. Stöðugt fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaganna án þess að þeim hafi fylgt nægir tekjustofnar. Þennan vanda verður að leysa til framtíðar en ekki með árlegum björgunaraðgerðum. Í þessu sambandi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.

Þá er hér enn fremur flutt tillaga um 700 millj. kr. aukið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að bæta að nokkru úr brýnum fjárhagsvanda þeirra sem verst eru sett. Brýnt er að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og það áður en rætt er um frekari verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga.

Þá vil ég gera hér að umtalsefni Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir framlagi til mannréttindamála almennt en framlagið er ekki eins og áður eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands. Samkvæmt þessari breytingu munu stjórnvöld sjálf ráða hvaða verkefni á þessu sviði verða styrkt í mannréttindamálum. Það er ekki ásættanlegt að vegið sé að sjálfstæði stofnunarinnar þar sem ákvörðun um framlag til hennar hefur verið fært frá löggjafarvaldinu, frá Alþingi, til framkvæmdarvaldsins. Nauðsynlegt er að hér á landi starfi óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum, eins og segir m.a. í áskorun frá stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands, með leyfi forseta:

„Að mati stjórnarinnar væri það mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef sú yrði raunin að skrifstofunni væri ekki lengur tryggt fast framlag á fjárlögum og yrði að draga sig út úr þeim samstarfsverkefnum sem hún á aðild að á alþjóðavettvangi.“

Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur undir með stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands og öðrum sem hafa gagnrýnt þessa breytingu, svo sem hinni virtu Wallenberg-stofnun sem hefur sent erindi til Alþingis. Nauðsynlegt er að breyta þessu og færa aftur í fyrra horf þannig að sjálfstæði skrifstofunnar sé tryggt og hún geti starfað án þess að fjárframlögum fylgi skuldbindingar eða stýring.

Með þessu nefndaráliti fylgja í fylgiskjölum áskoranir varðandi sjálfstæði Mannréttindastofnunar Íslands, áskorun frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Rauða krossinum, Landssamtökum Þroskahjálpar, Biskupsstofu, UNIFEM og frá presti innflytjenda, svo að nokkuð sé nefnt. Hér er gríðarlegt áherslumál á ferðinni sem lýtur að mannréttindamálum og stöðu Íslands gagnvart störfum að mannréttindamálum um allan heim.

Stjórnarandstaðan mun flytja breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem felur í sér að sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands sé tryggt með beinum fjárframlögum frá Alþingi en ekki frá framkvæmdarvaldinu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt þær áherslur sem fram koma í þessu fjárlagafrumvarpi. Frumvarpið er í samræmi við fyrri frumvörp þessarar ríkisstjórnar, þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim einstaklingum mest sem hafa mest fyrir. Boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar munu koma þeim best sem hafa mest. Til að auka tekjur ríkissjóðs eru síðan komugjöld á sjúkrastofnanir og skráningargjöld í opinberum háskólum hækkuð.

Þá mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að auka fjárveitingar til þess að hervæða íslenska ríkisborgara og stilla þeim upp við hlið hersveita NATO og Bandaríkjanna. Þá er hér mótmælt veru Íslands á lista um stuðning hinna vígfúsu ríkja við innrásina í Írak og að fjármagni sé varið til þeirra aðgerða, enda hefur hvorki íslenska þjóðin né Alþingi verið haft með í þeirri ákvarðanatöku. Því er enn fremur mótmælt að íslenska ríkið leggi fram fé til hergagnaflutninga.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þessum áherslum og vill að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundins mismunar á lífskjörum fólks. Það að öllum þegnum þjóðfélagsins séu tryggð mannsæmandi lífskjör á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags. Leggja á meiri áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.

Stjórnvöld verða að stuðla að fjölbreyttari atvinnustefnu en nú er. Stefna stjórnvalda nú snýst alfarið um að byggja hér upp erlenda stóriðju sem ryður burt minni fyrirtækjum og öðrum útflutningsgreinum.

Frú forseti. Þessu nefndaráliti fylgja síðan fylgiskjöl til að undirstrika frekar þau atriði sem hér hafa verið rakin. Ég minntist á áskoranir um að standa vörð um sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég minntist á skuldir fyrirtækjanna og þjóðarbúsins og hér fylgir með í fylgiskjali útdráttur úr skýrslu BSRB sem fjallar um skuldir þjóðarbúsins og var birt í síðustu viku. Þar er rakið hvernig Ísland er að verða með skuldugustu löndum heims.

Hér eru einnig rakin í stuttri greinargerð frá greiningardeild KB-banka áhrif þess að taka gengistryggð lán á breytilegum erlendum vöxtum. Hún sýnir að ef erlendir vextir heimilis sem tekur 10 millj. kr. lán með erlendum vöxtum hækka um 2% og gengið lækkar um 10% eykst mánaðarleg greiðslubyrði viðkomandi um meira en 50%. Í þessari greinargerð er lýst þeirri gríðarlegu áhættu sem felst í því að taka erlend lán. Það getur verið ávinningur að taka erlend lán þegar krónan stendur lágt og vextir erlends eru háir. Þá eru líkur til þess að það geti orðið ávinningur og þeim krónum fjölgað sem teknar eru að láni vegna breytinga í gengi og vöxtum. Við þær aðstæður sem nú eru, við lægstu vexti erlendis og hæsta gengi krónunnar, er mikil áhætta að taka erlend lán og veðsetja eignir sínar upp í topp fyrir erlendum lánum því þau geta ekki annað en vaxið að raungildi og greiðslubyrði þeirra aukist. Þetta er rakið hér ítarlega.

Frú forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir framhaldsnefndaráliti við 3. umr. fjárlaga en kem síðar í dag og mæli fyrir einstaka breytingartillögum sem ég flyt.