131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:59]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í ræðu minni hef ég miklar efasemdir um þessar aðgerðir Seðlabankans og vil jafnframt inna hv. þingmann eftir viðbrögðum hans. Hækkun stýrivaxta Seðlabankans nær einungis til um 30% af því fjármagni sem er í umferð hér á landi. Það fjármagn er jú skammtímalán einstaklinga og minni fyrirtækja hér á landi. Ég er ekki viss um að þetta sé sú aðgerð sem við viljum sjá. En aðgerðirnar hafa þegar í stað áhrif á gengið. Gengið hefur breyst á nokkrum mánuðum, íslenska krónan hefur hækkað, gengisvísitalan hefur fallið úr 130 niður í 115. Dollarinn er kominn úr 110 niður í 63 kr. Hvaða útflutningsgrein stendur svona lagað af sér, svona snöggar breytingar á nokkrum mánuðum? Hvaða útflutningsgrein ætlar að standa það af sér? Við vonum að þær geri það en þetta eru ekki þær aðgerðir sem ég tel brýnast að efna til. Þetta byggir að vísu á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar.

Varðandi skattstefnu er ég ekki sammála þeim áherslum sem koma fram í efnahagsmálum hjá ríkisstjórninni. Lækkun skatta á hátekjufólki við þessar aðstæður er röng. Við þessar aðstæður ber að standa vörð um velferðarkerfið, hinar almennu grunnstoðir samfélagsins sem allir geta leitað til og greitt jafnt fyrir, notið með jöfnum hætti hvort sem menn hafa miklar tekjur eða litlar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram áherslur okkar í skattamálum sem lúta að því að jafna skattgreiðsluna á þegnana, taka upp aukna skatta á fjármagnstekjur að frádregnu ákveðnu frítekjumarki og breikka þar með tekjugrunn ríkisins.