131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:01]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki miklu nær þrátt fyrir þessa ágætu ræðu. Ég veit ekki enn þá hver stefna hv. þm. og hans ágæta flokks, Vinstri grænna, er. Telur hann að 8% aukning, eins og kemur fram í því fjárlagafrumvarpi sem við erum að ræða um núna, til menntamála, félagsmála og heilbrigðismála sé ekki nægjanleg aukning? Telur hann að það hefði átt að hækka þetta meira en við erum að gera? Það kemur svolítið einkennilega við okkur stjórnarþingmenn sem sitjum þó undir gagnrýni alls staðar annars staðar frá um að aðhald í ríkisútgjöldum sé ekki nægilegt og að við séum að auka þetta of mikið að þá kemur gagnrýni frá Vinstri grænum að við eigum að auka þetta enn þá meira. Það er mjög erfitt að átta sig á þessu.

Hv. þm. svaraði heldur ekki spurningu minni: Hvað með kaupgjaldið í landinu? Er það rétt sem komið hefur fram frá þeim að þeir telji að það þurfi að hækka það verulega núna, það þurfi að auka einkaneyslu í þjóðfélaginu verulega núna? Er það baráttumál þeirra? Hvernig koma þeir því heim og saman?

Hins vegar bregður svo við, virðulegi forseti, að einstaka sinnum erum við ekki ósammála, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, því það lán er yfir mér eða ólán, hvort heldur menn vilja kalla það, að oftast nær hefur mér ekki tekist að skilja hagstjórnartilburði Seðlabankans á síðari árum. Ég átta mig því ekkert á hvað hann er að gera og hvers vegna hann er að gera þetta núna, ég fæ engan botn í það. Og ég skil ekki hvernig við getum núna við þessar aðstæður farið að auka ójafnvægið, það eina sem er í samfélaginu, þ.e. viðskiptajöfnuðinn eða viðskiptaójöfnuðinn, með því að hækka gengið enn einu sinni. Þar erum við kannski loksins sammála.