131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:03]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem ekkert óeðlilegt við það að við séum á öndverðum meiði hvað varðar stefnu í skattamálum og velferðarmálum. Þar greinir okkur á stjórnmálalega á milli flokka. Ég tel t.d. að það sé orðinn stór hópur í þjóðfélaginu sem hefur himinháar tekjur og allt of háar tekjur og það eigi fyrst og fremst að snúa sér að þeim sem hafa hundruð þúsunda, milljónir á mánuði, frekar en að beina spjótunum stöðugt að þeim sem eru með lægstu eða lægri launin. Það eru þeir sem valda þenslunni í þjóðfélaginu, það eru þeir sem eru með himinhá laun og launabil í samfélaginu eykst nú stöðugt.

Hv. þm. hafði áhyggjur af vaxandi einkaneyslu og hann kemur sjálfsagt að því í ræðu hér seinna hvaða áhrif skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á þeim sem hafa hæstar tekjurnar og fá mest út úr skattalækkununum hafa á einkaneysluna. Er það ekki þensluhvetjandi? Hefði ekki verið rétt að huga frekar að þeim sem eru lægst launaðir og hækka ávinning þeirra meira en ekki að hygla þeim sem hafa hæstar tekjurnar? Ég held að það hefði virkað á stöðugleikann.

En það sem ég vil ítreka hér og nefna er sú staða sem við stöndum nú frammi fyrir með gengisvísitölu upp á 115 og dollarann á 63 kr. Dollarinn hefur næstum því lækkað um helming á tveimur árum. Það stendur enginn útflutningsatvinnuvegur svona lagað af sér. Erum við markvisst að fara að rústa meiri hlutanum af útflutningi þjóðarinnar? (Forseti hringir.) Ég vona að svo sé ekki og vona að það verði breyting á efnahagsstefnunni sem styrki aftur útflutninginn og atvinnulíf landsins.