131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:42]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Lífríki sjávar er breytilegt og þeir sem hafa lífsafkomu af því að nýta það hafa alla tíð orðið að laga sig að breyttum skilyrðum. Stundum hefur fiskast vel af einni tegund, á öðrum tíma er sama tegund horfin. Á sumar tegundir hefur verið valtara að treysta en aðrar. Síld, loðna, ufsi, rækja, hörpudiskur og ígulker eru dæmi um tegundir sem hafa komið og farið sviplega af miðunum við landið. Hrun veiðistofns sem á er treyst getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið á viðkomandi stað. Það ígildi eignarréttar á veiðiréttinum sem felst í núgildandi lögum hefur leitt til þess að útgerðir sem hafa jafnvel greitt gríðarlegar upphæðir fyrir veiðirétt í einhverri tegund verða að hætta að veiða hana og hafa ekki grundvöll vegna þess háa verðs sem er á veiðiréttinum til að snúa sér að öðrum veiðiskap.

Í lögunum um stjórn fiskveiða hafa stjórnvöld það úrræði að veita veiðirétti í öðrum tegundum til útgerða sem lenda í vanda vegna hruns á veiðistofni. Úrræðið snýr þó einungis að viðkomandi fyrirtæki. Engin skilyrði um að nýta veiðiheimildirnar á viðkomandi stað hafa fylgt bótum af þessu tagi.

Það er eðlilegt að ríkið komi til móts við byggðarlög sem lenda í vanda af þessu tagi. Sá stuðningur á hins vegar að vera tengdur atvinnulífi byggðarlagsins í stað þess að taka eingöngu til ábyrgðar á fjárfestingu fyrirtækja í veiðirétti. Ég tel fulla ástæðu til að veita orðum hæstv. ráðherra um breytt vinnubrögð athygli og vonast sannarlega til þess að hluti af þeim breyttu vinnubrögðum sé að sjá til þess að veiðiréttur sem verður úthlutað með þessum hætti vegna vanda í byggðarlögum verði tengdur byggðarlögunum en ekki einungis fyrirtækjunum.