131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:44]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er vissulega mjög alvarlegt fyrir sjávarbyggðir þegar heilu veiðistofnarnir hrynja sem viðkomandi byggðarlög byggja afkomu sína á. Við getum tekið skelfisk og innfjarðarrækjustofna sem dæmi víða um land. Það er mikið áfall fyrir byggðir sem byggja afkomu sína að miklu leyti á því sem sjórinn gefur. Ég er á því og ég held að þverpólitísk sátt sé um það að stjórnvöld eigi að koma að áföllum sem þessum með sértækum hætti.

Mörg byggðarlög hafa hins vegar orðið fyrir viðlíka áföllum á umliðnum árum. Við getum tekið sem dæmi innfjarðarrækjustofninn í Öxarfirði og jafnframt erfiða stöðu í rækjuiðnaði víða um land sem bitnar sérstaklega á ákveðnum byggðarlögum. Við getum tekið þar Húsavíkurkaupstað og Siglufjarðarkaupstað sem dæmi. Það er því rétt að árétta að stjórnvöld hafi á hverjum tíma stjórntæki til að takast á við staðbundið hrun veiðistofna eða aðrar óhagstæðar aðstæður sem af einstökum tegundum stafar.

Hæstv. forseti. Við skulum hins vegar horfast í augu við það að störfum í sjávarútvegi fer fækkandi og þeim mun fara fækkandi á næstu árum miðað við óbreytt ástand fiskstofna. Miklar tækniframfarir gera það að verkum að störfum fækkar, enda er nauðsynlegt að reka íslenskan sjávarútveg með arðsemi að meginmarkmiði. Þess vegna er það sjálfsögð krafa sjávarbyggðanna að það veiðigjald sem af starfsgreininni er tekið verði nýtt til nýsköpunar í atvinnumálum í viðkomandi byggðarlögum. Það er sjálfsögð krafa, því ef fjármunir af veiðigjaldinu munu ekki renna til sjávarbyggðanna er hér um sérstakan landsbyggðarskatt að ræða og það munu íbúar í hinum dreifðu byggðum ekki sætta sig við.