131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það augljóslega mikið áfall fyrir þau svæði og byggðarlög sem alfarið hafa byggt á veiðum á innfjarðarrækju og hörpudiski er ekkert veiðist. Það er þeim mun tilfinnanlegra sem þær greinar hafa vegið þyngra í atvinnulífi á viðkomandi svæði.

Nú er það svo að flest bendir til að með þessu séum við a.m.k. að verulegu leyti að horfast í augu við afleiðingar af loftslagsbreytingum, hlýnun sjávar og lofthjúps. Það er hollt fyrir ýmsa að hafa það í huga en sennilega er þetta aðeins lítið sýnishorn af þeim hrikalegu breytingum sem orðið geta því samfara á næstu áratugum ef svo heldur fram sem horfir og spár vísindamanna ganga eftir. Við svona aðstæður er að sjálfsögðu mikilvægt að efla rannsóknir, reyna að vakta svæðin og skilja hvað þar er að gerast.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt að tekið sé til skoðunar með hvaða hætti er hægt að standa við bakið á þeim sem mæta þessum erfiðleikum, t.d. með breyttu fyrirkomulagi á bótum í formi veiðiréttinda í öðrum tegundum, ef til vill úthlutun með varanlegri hætti en verið hefur. Þá er rétt að hafa í huga að menn greiddu fyrir veiðiheimildir í sérveiðum með afsali veiðiréttinda á sínum tíma. Ef þær veiðiheimildir, sá kvóti, er í raun orðinn verðlaus og gagnslaus þar sem ekki er lengur um veiðanlega stofna að ræða til langframa þá hlýtur auðvitað að þurfa að endurmeta það.

Ég tel líka eðlilegt að skoða það sérstaklega að koma til móts við atvinnuhagsmuni og stöðu viðkomandi byggða í almennu samhengi. Þetta bitnar sérstaklega þungt á byggðum um norðvestanvert landið, þótt áhrifanna gæti reyndar allt austur um til Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar. Mér finnst að við slíkar aðstæður sé eðlilegt að stjórnvöld skoði það að auka fjárframlög til atvinnuþróunar og nýsköpunar í öðrum greinum á viðkomandi svæðum þannig að menn geti reynt að snúa vörn í sókn og efla annað atvinnulíf í stað þess sem þar er að dragast saman eða tapast.