131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:53]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli tekið upp utan dagskrár á hinu háa Alþingi, hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarrækju. Það er sannarlega rétt að innfjarðarrækjan hefur hrunið úr 12 þús. tonnum niður í 500 tonn og hörpudiskurinn úr 10–11 þús. tonnum niður í ekki neitt.

En, virðulegi forseti, það er einn stofn í viðbót, úthafsrækjan, sem ég ætla að gera að umtalsefni. Þar hefur úthlutaður kvóti dottið niður í 20 þús. tonn úr 75 þús. tonnum veiðiárið 1997–1998, þ.e. um 75%. Við skulum einnig halda því til haga, virðulegi forseti, að það hefur haft mjög alvarleg áhrif á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni, alveg eins og hrunið í innfjarðarrækjunni og hörpudisknum. Þess vegna verðum við að ræða málið í heild sinni.

Það er ekkert annað, virðulegi forseti, en náttúruhamfarir sem koma upp í huga manns þegar þessi mál eru rædd. Á öllum náttúruhamförum höfum við Íslendingar tekið sameiginlega, sama hvort um jarðskjálfta eða snjóflóð hefur verið að ræða. Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að taka verði á þessum málum af meiri krafti en gert hefur verið. Það er ekki ásættanlegt, virðulegi forseti, að rétt um 3.500 tonn komi úr svokallaðri 9. grein til bóta fyrir innfjarðarrækju og hörpudisk. Það er ekki ásættanlegt að ekki séu komnar bætur í öðrum veiðistofni fyrir úthafsrækjuna, að það þurfi að bíða næsta árs.

Þetta er mjög alvarlegt mál, virðulegi forseti, og inn í það blandast jafnframt skortur Hafrannsóknastofnunar á fjármagni til að stunda rannsóknir á því sem er að gerast vegna hlýnunar sjávar.

Ég vil, virðulegur forseti, í lokin spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra tveggja spurninga. Annars vegar hvort hann, innan ríkisstjórnar eða hann sjálfur, vilji beita sér fyrir breytingu á 9. grein þannig að þessi viðlagapottur, eða hvað við eigum að kalla þennan viðlagasjóð, komi strax til þegar áföllin verða, eins og urðu í fyrra með 20 þús. tonnin í úthafsrækjunni.

Í öðru lagi vil ég spyrja um nokkuð sem snýr að veiðileyfagjaldinu eða auðlindagjaldinu: Telur hæstv. sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) að vegna erfiðleika í rækjuveiðum, verðfalls á rækjuafurðum, komi til greina að leggja ekki auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir í úthafsrækju?