131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:55]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Það er athyglisvert varðandi veiðibrestinn sem er tilefni þessarar utandagskrárumræðu að stjórn á veiðum á umræddum tegundum hefur þannig verið háttað á undanförnum árum að farið hefur verið eftir tillögum fiskifræðinga að fullu og öllu. Menn hafa sniðið veiðunum þann stakk sem fiskifræðingar hafa skorið utan um þær en engu að síður er allt í fári. Það mætti vera mönnum umhugsunarefni gagnvart annarri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Menn mega hafa það í huga að fiskifræðin er ekki sú fræðigrein sem hefur alla þekkingu á valdi sínu er menn taka mið af henni í ákvörðun um leyfilegar veiðar úr fiskstofnum.

Víkjum aðeins að innfjarðarrækju og hörpudiski. Þetta eru stofnar eða auðlindir sem menn hafa nýtt sér frá nálægum byggðarlögum. Nytjar af þeim hafa verið nátengdar tilteknum byggðarlögum þar sem menn hafa nýtt þessar auðlindir sér til framfæris. Auðvitað getur farið svo í náttúrunni að aðstæður breytist þannig að þessir stofnar verði veikari og ekki veiðanlegir en þá verða aðrir stofnar sterkari, eins og hér hefur verið rakið, bæði þorskur og ýsa. Þá eiga menn auðvitað að haga hlutunum þannig að menn geti nýtt sér þær auðlindir sem eru við bæjardyrnar, ef það er ekki rækja eða skelfiskur í dag þá er það þorskur eða ýsa á morgun. Menn eiga þá að geta gengið í þær auðlindir og nýtt sér þær sér til framfæris og atvinnusköpunar.

Við höfum því miður búið til allt of stíft kerfi utan um þessa atvinnugrein sem gerir það að verkum að menn geta ekki brugðist við náttúrulegum breytingum til þess að þróa atvinnulífið í takt við það. Það er okkar vandi.

Ég minni á það að lokum, virðulegi forseti, að þeir sem veiða í Ísafjarðardjúpi, svo dæmi sé tekið, því að það þekki ég mætavel, urðu að borga ákaflega mikið fyrir sérveiðileyfið með því að afsala sér hluta af þorskveiðikvóta sínum. (Forseti hringir.) Mörg þúsund tonnum var afsalað frá þessum byggðarlögum af þorskveiðikvóta (Forseti hringir.) til annarra sem aldrei höfðu lagt inn neina veiðireynslu til að fá þann kvóta.