131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[14:07]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það voru fluttar 11 ræður sem ég þarf að veita svör við á tveimur mínútum þannig að það er eins gott að drífa sig í það.

Reynt hefur verið að tengja bæturnar við atvinnulífið í byggðarlögunum og í þeirri vinnu sem við höfum verið að vinna að undanförnu er enn frekar reynt að gera það.

Það er ástæða til að taka undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um að ástæða sé til þess að verja fjármunum til nýsköpunar í atvinnulífi á landsbyggðinni. Það er einmitt markmiðið með svokölluðu AVS-verkefni því að sjávarútvegurinn er auðvitað fyrst og fremst atvinnugrein landsbyggðarinnar.

Ég vara hins vegar við því þegar menn fara í ræðustól og tala eins og þetta sé fiskifræðingunum að kenna, af því að farið hafi verið eftir ráðleggingum fiskifræðinganna sé það þeim að kenna að ekki veiðist betur nú en raun ber vitni. Treystið okkur, vitnaði hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson í fiskifræðingana, en vísindamenn ræða aldrei á þessum nótum nema að gefnum ákveðnum forsendum. Það eru þær forsendur sem eru að breytast og það er raunverulega við þeim sem við verðum að bregðast, alveg á sama hátt og náttúran bregst við þessum breytingum. Ég held hins vegar ekki að það sé rétta leiðin að fara 20–25 ár aftur í tímann og rífa upp kvótatilfærslur sem komu til vegna sérveiðileyfa. Þeir sem fengu þá rækjuúthlutun og skelúthlutun hafa notið þess í ríkum mæli þegar þessir stofnar ruku upp, alveg upp í 75 þús. tonn eins og gerðist hérna í stuttan tíma, eins og hv. þm. Kristján Möller nefndi, á meðan samdráttur hefur verið í öðrum tegundum, eins og var t.d. í ýsunni og auðvitað í þorskinum.

Hæstv. forseti. Tíminn er liðinn. Það er margt sem ég hefði gjarnan viljað svara frekar en verð að reyna að gera það síðar.