131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:12]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér nú við 3. umr. fjárlaganna, framhaldið eftir hádegishlé. Ég ætla að nota mér fljótlega í ræðu minni að hæstv. samgönguráðherra er í salnum og víkja að samgöngumálunum og fyrirhuguðum niðurskurði á þeim. Ég mun þar af leiðandi breyta ræðu minni nokkuð frá því sem ég hugðist flytja hana.

Ég vil þó í upphafi geta þess sem mér fannst mikill galli við fjárlagavinnuna núna á síðustu vikum, að það skyldi dragast svo úr hömlu þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, að því er ég tel, formanns fjárlaganefndar að fá yfirlit yfir stofnanir og ráðuneyti um það hvernig stefndi með fjárlagaeftirfylgnina á þessu ári. Ég held að rétt sé að fara nokkrum orðum um það áður en lengra verður haldið.

Við reynum í fjárlagavinnunni að meta hvernig fram hefur undið á því ári sem við erum að vinna. Við höfum verið að afgreiða fjáraukalög og til þess að meta málið í heild sinni, fjárlög fyrir næsta ár, hefðu menn eðlilega viljað sjá í tíma í hvað stefndi í hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegur forseti, að þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni formanns fjárlaganefndar barst þessi listi okkur ekki fyrr en núna fyrir örfáum dögum, þ.e. 29. nóvember. Það gerir, a.m.k. að mínu viti, það að verkum að menn hafa ekki þá yfirsýn sem þessi listi birtir. Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði reyndar einnig við umræðu um fjáraukalögin og tel næsta víst að allir í fjárlaganefnd — ég á þar áheyrnaraðild — séu mér sammála um að mjög æskilegt sé að slíkur verkefnalisti, um stöðu stofnana og ráðuneyta að því er varðar fjárlögin og hvernig rauntölur líta út, liggi fyrir sem fyrst í upphafi hvers þings. Eins og venja er eru fjárlög lögð fram sem fyrsta skjal þingsins á hverju hausti. Það mundi örugglega auðvelda fjárlagavinnuna og gefa mönnum betri yfirsýn yfir það hvert stefndi í einstökum málaflokkum og stofnunum ef það lægi fyrir strax í upphafi. Þá væri líka æskilegt að fyrir lægi áætluð staða viðkomandi stofnana og ráðuneyta um áramót.

Þetta vildi ég segja almennt og tel ég að þessu þurfi að fylgja mjög vel eftir næsta haust. Ég hef ekki heyrt annað reyndar en að formaður fjárlaganefndar muni gera það en það hefur gengið ákaflega illa að ná þessum lista, væntanlega út úr viðkomandi ráðuneytum eða stofnunum. Eitthvað hefur tafið það. Þetta held ég að þurfi að leggja mikla áherslu á varðandi vinnu í fjárlagagerðinni.

Að öðru leyti vil ég segja almennt um fjárlagagerðina, svo það hafi verið sagt af minni hálfu, að ég sé ekki annað en að menn hafi reynt að leysa verkefnið vel af hendi og að starfið hafi gengið vel að flestu leyti, en það má gjarnan bæta upplýsingagjöfina og því vek ég athygli á þessu hér.

Þá langar mig að víkja að því, á meðan hæstv. samgönguráðherra er í salnum, sem fyrirhugað er varðandi niðurskurð á fjárlögunum. Stefnt er að því að skera niður framkvæmdir í landinu um 2 milljarða á þessu ári og um 2 milljarða á því næsta. Ég minni á að við frestuðum verklegum framkvæmdum í samgöngugeiranum sl. ár fyrir 1,6 milljarða, ef ég man rétt. Samanlagt eru það tæpir 6 milljarðar á þremur árum, þ.e. þessu ári, næsta og þarnæsta. Hið svokallaða flýtifé í vegaframkvæmdum sem kom inn fyrir kosningarnar 2003, á því þingi og við töldum öll á hv. Alþingi til mikilla bóta, er búið að draga til baka núna ef niðurskurðurinn á að bitna á samgönguframkvæmdunum.

Ég hef sagt það áður í ræðum mínum varðandi hinn fyrirhugaða niðurskurð að því miður væri ástandið svo í því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir að þar væri ekki um mikla mælanlega þenslu að ræða og að ekki fyrirsjáanlegt að við gætum sætt okkur við mikinn niðurskurð á verklegum framkvæmdum þar. Vona ég að svo verði ekki. Ég hef einnig nefnt það í ræðum mínum að vegakerfið í Norðvesturkjördæmi og reyndar líka á norðausturhorninu væri þannig að mikið þyrfti að gerast þar til að við kæmumst á svipað stig og annars staðar á landinu. Þess vegna væri okkur mikið í mun að berjast á móti því að niðurskurður vegaframkvæmda ætti sér stað.

Ég tek þetta til umræðu af því tilefni að hæstv. samgönguráðherra er í salnum. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra gerði nokkra grein fyrir því í andsvari á eftir eða ræðu hvort fyrir liggja tillögur um hvar niðurskurðurinn á að koma niður eða hvað hafi verið rætt í því sambandi og hvar menn hyggist skera niður í framkvæmdum.

Ég tel að það væri afar erfitt fyrir þau landsbyggðarsvæði þar sem þenslan hefur vart verið mælanleg og sem eru verulega á eftir í vegakerfinu ef niðurskurður ætti að bitna harkalega á vegaframkvæmdum þar, því sennilega eru fáar verklegar framkvæmdir eins nauðsynlegar og vegaframkvæmdir á mörgum svæðum landsins, sérstaklega held ég að menn deili ekki um að vegakerfið á Vestfjörðum er langt á eftir því sem er víða annars staðar á landinu, þó þar hafi vissulega gerst ágætir hlutir á undanförnum árum. Ber ekki að lasta það. Þetta vildi ég sagt hafa varðandi þetta atriði og mundi mjög gjarnan vilja að hæstv. samgönguráðherra reyndi að tjá okkur hvað fyrirhugað væri varðandi niðurskurð á vegaframkvæmdum til aðhalds í ríkisfjármálum.

Talað er um að þensla sé mikil í landinu og að á henni þurfi að taka. Rétt kann að vera að svo sé, alla vega er þó nokkuð mikið um að vera á Reykjavíkursvæðinu. Hér rýkur fasteignaverð upp og miklir peningar streyma út úr bankakerfinu, m.a. í endurlán og fjármögnun á kaupum á íbúðarhúsnæði. Við vitum að í tengslum við framkvæmdirnar á Austurlandi, sérstaklega Miðausturlandi, verður mikið um að vera þar á næstu árum. Að sjálfsögðu getur þetta haft áhrif um allt land, en þetta hefur fyrst og fremst að mínu viti áhrif á Austfjarðasvæðið vegna uppbyggingarinnar þar og hins vegar, eins og ævinlega ef einhvers staðar er eitthvað um að vera á landinu, hefur þetta áhrif á suðvesturhorninu þar sem peningarnir fara um og margföldunaráhrifin koma iðulega fram. Það eru því ýmsar hliðar sem þarf að ræða í þessu sambandi. Ég held að menn verði líka að líta á rök okkar úr landsbyggðakjördæmunum þegar við ræðum þessi mál almennt fyrir landið og horfa til þess í hvaða stöðu kjördæmin eru, því hún er vissulega mjög mismunandi eftir landsvæðum. Þetta vildi ég segja um samgöngukerfið og fyrirhugaðan niðurskurð þar.

Mikil umræða hefur verið um fyrirhugaðar skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagaumræðuna undanfarið og þær áherslur sem lagt hefur verið upp með þar. Það er ekkert launungarmál og er öllum ljóst að stjórnarandstaðan hefur haft aðrar skoðanir á því hvernig fara bæri í útfærslu á skattalækkununum. Það hefur ekki verið neitt launungarmál í mínum flokki þegar upp kom umræðan um miklar skattalækkanir í kosningabaráttunni, að við töldum að ef að fara ætti að lækka skatta ættu þeir að hafa forgang sem hefðu lökust kjörin. Við töldum og teljum enn að það sé öfug forgangsröðun að halda áfram að lækka hátekjuskattinn um 2% á næsta ári, fella hann niður árið 2006 og bæta síðan við í útfærslu varðandi skattalagabreytingarnar með því að fara í flata prósentulækkun á tekjuskatti. Við teljum að þessar tvær útfærslur nýtist miklu betur þeim sem hæstar hafa tekjurnar, en komi miklu lakar út fyrir þá sem hafa lægri tekjur.

Að mínu viti er nánast óásættanlegt að upp undir 30 þús. einstaklingar greiða tekjuskatt af launum sem eru undir 100 þús. kr. á mánuði. Mér finnst það varla ásættanlegt. Þess vegna er ég mjög ósammála framsetningu hæstv. fjármálaráðherra, sem hann vék að í ræðu sinni ef ég man rétt, þegar hann sagði að skattgreiðendum hafi fjölgað hér á landi hlutfallslega. Það liggur náttúrlega í augum uppi að ef persónuafslátturinn heldur ekki raungildi sínu og menn greiða tekjuskatta af bótum og lágmarkslaunum undir 100 þús. kr. á mánuði fjölgar skattgreiðendum miðað við það sem áður var. Ef ég man rétt úr umræðu sem hér fór fram þá nefndi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að þeir sem væru með tekjur undir 100 þús. kr. greiddu alls um 2 milljarða í tekjuskatt.

Ég tel að það hefði átt að reyna að vinna markvisst að því að fólk með minni tekjur en 100 þús. kr. á mánuði greiddi alls ekki tekjuskatt. Bara alls ekki. Það er í samræmi við það sem við settum fram í kosningabaráttunni í Frjálslynda flokknum, að ef svigrúm væri til skattalækkana ætti að horfa sérstaklega til hækkunar á persónuafslætti til að hækka frítekjumarkið og koma þannig á móts við stöðu þeirra sem lægst hafa launin. Slík útfærsla hefði fært sömu krónutölu til hátekjumannanna eins og lágtekjumannanna. Ég tel að það hefði verið sanngjarnt í þessari stöðu að fara þá leið.

Það má líka velta fyrir sér öðrum leiðum sem færa því fólki kjarabót sem notar alla fjármuni sína til viðurværis og á ekki afgang til sparnaðar. Nefndar hafa verið ýmsar útfærslur, t.d. að því er varðar barnafjölskyldur. Við í Frjálslynda flokknum styðjum það sem gert er ráð fyrir varðandi barnabæturnar í tillögum ríkisstjórnarinnar. Því miður kemur það ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 2006, ekki næsta ár, og hins vegar á árinu 2007. Ég tel að þær skattalagabreytingar sem við erum að keyra inn í á þessu ári, þ.e. sem eru fjárlögin sem við ræðum fyrir næsta ár, komi fyrst og fremst því fólki sem hefur meiri tekjur til góða.

Ég er algjörlega andvígur því í þessari stöðu að fella niður hátekjuskattinn og tek ekki undir þau rök sem hafa iðulega verið flutt að menn ættu ekkert að vera að ræða það því það væri búið að binda það í lög. Það ætti ekkert að vera að ræða það að fella niður hátekjuskattinn því það væri í lögum. Ég tel að það eigi einmitt að ræða það, það sé öfug forgangsröðun við núverandi aðstæður.

Síðan hefur það verið dregið fram og sá sem hér stendur dró það fram þegar við fjárlagaumræðuna sl. haust þegar við gagnrýndum ríkisstjórnina fyrir að sýna ekki neinar tillögur til skattalækkunar, að ríkisstjórnin væri sennilega að undirbúa skattalækkanir næstu ára sl. haust með því að leggja af stað með ýmis gjöld og ýmsa gjaldtöku í fjárlögunum sem voru látin koma í gildi á þessu ári. Verið var að taka inn nýja tekjustofna, eins og þungaskatt, vörugjöld, skerðingar á vaxtabótum, tryggingagjald, skerðingar á barnabótum, upptöku komugjalda o.s.frv.

Síðan hefur verið bætt í nýverið. Við vorum að hækka áfengisgjöldin og tókum þar inn 340 millj. kr. í tekjur. Það stendur til að hækka skólagjöldin. Þar tókum við um 140 millj. kr. í tekjur. (GunnB: 150 milljónir.) 150 milljónir, segir hv. þm. Gunnar Birgisson, bæjarstjórnarmaður úr Kópavogi. Ég geri ráð fyrir að hann viti það og tek leiðréttingu hans til greina, 150 millj. kr., hv. þingmaður.

Ef við höldum áfram að tína saman það sem hækkað var við fjárlagaafgreiðsluna síðasta haust og það sem hækkað hefur núna þá komumst við að niðurstöðu sem réttilega birtist í nefndaráliti 1. minni hluta, að með þessu lagi verði tekjurnar auknar um tæpa 5 milljarða kr. Nú eru skattar hins vegar lækkaðir um 1% flatt á tekjuskattinn. Áætlað er að það kosti um 4 milljarða kr. og þar til viðbótar megum við ekki gleyma hátekjuskattinum sem lækkar um 2% á næsta ári. Þannig mætti ætla að útkoman sé nokkurn veginn á jöfnu. Ætli það sé ekki nokkurn veginn núll sem kemur út úr dæminu þegar upp er staðið ef við horfum bara á næsta ár. Ég er ekki að horfa til atriða sem koma fram í barnabótum og öðru slíku á árinu 2006 og 2007. Ef við horfum til næsta árs og reiknum með þeim lögum frá því í haust sem eru líka í gildi fyrir næsta ár þá erum við að tala um að það standi nánast á jöfnu, tekjuskattslækkun annars vegar, sem færist mun í meira mæli til hátekjufólksins og hins vegar ýmsir gjaldstofnar.

Rökræðu um að hér og þar muni 100 millj. kr. til eða frá ætla ég algjörlega að láta liggja milli hluta. Því verður ekki á móti mælt að sennilega koma inn 4–5 milljarðar í gjöld. Á móti kemur að það er verið að lækka tekjuskatt og hátekjuskatt.

Áherslur okkar í Frjálslynda flokknum fara ekki saman við áherslur ríkisstjórnarinnar að þessu leyti þótt við styðjum vissulega að það sem rætt er um í skattatillögum ríkisstjórnarinnar varðandi barnabætur komi til framkvæmda. Við hefðum hins vegar talið rétt að láta þær koma til framkvæmda þegar á næsta ári, koma þegar til móts við barnafjölskyldurnar í landinu og laga stöðu þeirra.

Vissulega hefði mátt sleppa því algjörlega, hæstv. forseti, að okkar viti í Frjálslynda flokknum, að lækka hinn sérstaka tekjuskatt. Við teljum enga þörf á því eins og ástandið í þjóðfélaginu er núna, að auka sérstaklega tekjumöguleika þeirra sem þegar hafa nægar tekjur fyrir, fólks með yfir 400 þús. kr. á einstakling eða 800 þús. kr. á hjón, að það þurfi sérstaka skattalækkun. Ég á voðalega erfitt með að átta mig á þeirri áherslu og furða mig á því að menn skyldu halda áfram á þeirri leið. Við núverandi aðstæður hefði ég talið að það hefði verið eðlilegt að fresta þeirri útfærslu, algjörlega. Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, varðandi skattamálin almennt.

Það er rétt að minna á einn tekjustofn sem ég held að skaði engan. Hann færir íslenska ríkinu nýjar tekjur sem ella hefðu horfið í hafið. Það er 5% reglan, um að það megi landa afla utan aflamarks sem tekinn var upp á árinu 2002. Lengi stóð styr um hvort leyfa ætti mönnum að tilkynna afla utan aflamarks. Það var sem betur fer loksins leyft. Síðan þessi regla var tekin upp á árinu 2002 hafa tekjur af afla sem svo hefur verið tilkynntur utan aflamarks — sem geta verið margar ástæður fyrir og hefur örugglega komið í veg fyrir eða minnkað brottkast, eða það vona ég — af þessari einu aðgerð aukið tekjur ríkisins um 472 millj. kr., á rúmum tveimur árum.

Ég spyr, virðulegi forseti, hvort ekki hefði verið rétt að hækka þessa prósentu upp í 7%. Reyndin er sú að nokkur skip fullnýta sér þessa reglu. Ef við erum sammála um það að dauður fiskur sé betur kominn á landi en í sjó, þótt hann gangi vissulega inn í lífríkið þar og verði fæða, þá held ég að við hefðum átt að líta til þessa. Við höfum enn þá tækifæri til að að skoða það.

Þessar tekjur renna í verkefnasjóð í sjávarútvegsráðuneytinu ... — Nei, þær ganga reyndar í AVS-sjóðinn. Verkefnasjóðurinn fær hins vegar sektarákvæðin sem gáfu 150 millj. kr. á síðasta ári sem er sérúthlutað af ráðuneytinu. Tökum aðra umræðu um það við tækifæri. En þessar tekjur færa okkur bæði aukin verðmæti og vinnu. Það sem meira er, við vitum þá betur hvað er veitt og drepið. Ég vildi nú aðeins geta þessa í umræðunni.

Einnig hefur mikið verið rætt um verkefni sveitarfélaga, stöðu þeirra og afkomu. Ég held að menn deili ekki um að sveitarfélögin þurfa mörg hver á auknum fjármunum að halda. Það kann að vera að einhver öflugustu sveitarfélögin hafi nægar tekjur til að standa undir verkefnum sínum en það er alveg ljóst að verkefni hafa verið að færast til sveitarfélaganna. Auk þess hefur ríkið ákveðið að draga úr kostnaðarþátttöku sinni í sumum verkefnum hjá sveitarfélögunum, sem ríki og sveitarfélög hafa haft sameiginlega. Í því sambandi má nefna eyðingu refa og minks og húsaleigubætur, svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarfélögin þurfa örugglega á auknum tekjum að halda enda hefur verið sérstök nefnd í að ræða það. En þar hillir því miður ekki undir neitt samkomulag ef ég veit rétt. Ég held að allt sé í uppnámi í þeirri nefnd. Sveitarstjórnarmennirnir segja jafnvel að þeir hafi ekkert þar að gera ef menn ætli ekki að finna neinn flöt á þeim fortíðarvanda sem skapast hefur hjá sveitarfélögunum. Áður en kemur að fyrirhuguðum sameiningum, sem kynni að vera hagkvæmt fyrir þjóðina og koma vel út til framtíðar, m.a. í fjárlögum Íslands í heild, þá held ég að leysa verði fortíðarvandann og marka nýja tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga áður en ný verkefni færast til sveitarfélaganna.

Það væri full ástæða til að vekja máls á stöðu ýmissa stofnana. Ég ætla ekki að taka langt mál í það en vek athygli á því að Landhelgisgæslan hefur dregið úr rekstri sínum á undanförnum árum til að reyna að haldast innan ramma fjárlaga. Nú er svo komið að suma daga, ef ekki vikur, er ekkert varðskip á sjó.

Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á stöðu Landhelgisgæslunnar og benti á að þar vantaði 80 millj. kr. inn í reksturinn ef ætti að vera hægt að halda úti eðlilegri og stöðugri útgerð miðað við verkefni Gæslunnar. Þar hafa menn dregið verulega saman í umfangi og ég tel að við höfum gengið á öryggisstuðul Gæslunnar með því.

Nýlega birtist skýrsla frá Ríkisendurskoðun um Náttúrustofnun. Það vantar verulega á að sú stofnun geti sinnt verkefnum sínum. Menn þurfa að fara yfir það og finna út hvernig með skuli fara. Ég vek líka athygli á því að nú, þegar fyrirhuguð er sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík, er því lofað að koma með sérstaka fjárveitingu til þess í fjárlögum á næsta ári. Við erum hér að ræða fjárlög og hefðum átt að reyna að meta hvað um væri að ræða. Menn ættu strax að gera ráð fyrir þeim fjármunum sem menn þykjast sjá fyrir að á muni vanta í rekstri Tækniháskólans í stað þess að það verði bætt síðar í fjáraukalögum. Meginaðferðin ætti að vera sú að allt komi inn í fjárlögin sem við vitum af og getum séð fyrir.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að hafa ræðu mína mjög langa. Ég var að vona að hæstv. samgönguráðherra þyrfti ekki að fara úr salnum án þess að svara spurningum mínum.

Ég ætla að víkja að einu máli í lokin sem varðar málefni sem ég hef nokkrum sinnum rætt í sölum Alþingis og einnig talað um í fjárlaganefnd. Það varðar málefni Byrgisins og fortíðarvanda þess. Þegar við tölum um fortíðarvanda Byrgisins þá er um að ræða uppsafnaðan vanda vegna framkvæmda þess félags á Miðnesheiði í Rockville, þegar aðstaðan var byggð upp þar. Þegar mönnum var gert að fara þaðan var ekki búið að greiða niður skuldbindingar vegna þeirra fjárfestinga og upp kom ágreiningur á milli ríkisins og Byrgismanna um hvernig á ætti að taka.

Á sínum tíma var sett nefnd í málið. Ég veit að menn muna að það var sett í þetta sérstök nefnd, ég held að hún hafi verið á vegum félagsmálaráðuneytisins, til að meta hvað þyrfti til. Niðurstaðan var sú að auka þyrfti fjárveitingar verulega til að þar væri hægt að vista alla vistmenn sem ráð var fyrir gert.

Ég ætla ekki að vera að rekja þá umræðu frá orði til orðs þótt ég hafi hana fyrir framan mig, hæstv. forseti. En það fór fram umræða um þessi mál við fjárlagagerðina í fyrra. Ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins til hennar. Þá skiptumst við á skoðunum um þetta mál, ég og háttvirtur varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Í ljós kom í rökræðum okkar á milli að þar sem hv. þingmaður taldi að kominn væri á samningur á milli Byrgisins og viðkomandi stjórnvalds þá væri ekki ástæða til að taka á málinu. Þessi misskilningur var leiðréttur við umræðuna og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í umræður milli okkar um þetta mál til að koma í veg fyrir misskilning. En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Það er komið kvöld, og það er líka komið kvöld í þessa umræðu, 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2004. Það eru samt nokkur atriði sem komið hafa hér fram sem ég held að rétt sé að gera aðeins að umræðuefni.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi mikið um málefni Byrgisins og annarra meðferðarstofnana. Það þarf að segja nokkur orð um það. Vitnað var í umræðunum réttilega til ummæla minna við 2. umr. fjárlaga um þá stefnu og þær meginmeiningar fjárln. að fara ekki ofan í gerða samninga sem ráðuneytin hefðu staðið fyrir. Nú upplýsti hann, sem ég vissi ekki áður, að ekki hefði orðið samkomulag milli félmrn. og Byrgisins. Eigi að síður er það meining okkar að við förum ekki óskoðað ofan í málefni, samninga eða það sem viðkomandi ráðuneyti vilja gera. Það eina sem ég gæti í málinu sagt og gert, og er guðvelkomið og sjálfsagt, er að fara yfir þennan samning sem Byrgið hefur gert með félmrn. og reyna að skoða hvort hægt sé að leita einhverra sátta.“

Þannig var þetta, hæstv. forseti. En síðan langar mig að vitna örstutt í andsvar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar við ræðu sem ég flutti. Í lokin á umræðunni féllu svofelld orð, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Ég hélt að þetta væri mjög skýrt. Ég sagði áðan að eins og staðan væri skyldi ég vera reiðubúinn til að fara í gegnum þessi mál, fara þá með þessu ágæta vistheimili, ræða þetta við félmrn., gá hvort það væri einhver flötur á því að við gætum náð saman um það. Ekki skal standa á því. Það eru engin önnur loforð sem ég hef gefið. Reiðubúinn til að gera það.“

Þetta voru orð háttvirts varaformanns fjárlaganefndar.

Í lokaandsvari mínu sagði ég eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Þau fullvissa mig um að þegar hv. þm. áttaði sig á því að raunverulegur samningur var ekki til um þetta mál væri hann tilbúinn til að vinna að því að skoða það og sjá hvaða lausn megi finna út úr því máli. Ég þakka fyrir þau svör.“

Þannig voru umræðurnar okkar á milli, hæstv. forseti. Ég hafði vonast til að viðræður hv. þm., varaformanns fjárlaganefndar, Einars Odds Kristjánssonar, við forsvarsmenn Byrgisins og stjórnvöld, mundu leiða til sátta og vonandi samnings um svokallaðan fortíðarvanda Byrgisins.

Ég lít þess vegna svo á að verkinu sé enn ólokið, en að hv. þm., varaformaður fjárlaganefndar, hafi mætt mótbyr við lausn málsins. Það er mín skoðun á málinu. Ég þekki hv. þingmann ágætlega og veit að ef hann hefur sagst ætla að skoða mál þá gerir hann það. Ég met því málin þannig að hann hafi fengið mótbyr, annaðhvort í ráðuneytinu eða hjá öðrum nefndarmönnum í fjárlaganefnd við það að finna lausn á málinu, en vona samt sem áður að málið sé ekki út af borðinu og á því megi finna lausn og treysti því auðvitað að hv. þingmaður muni reyna það svo framarlega sem hann fái ekki algjöra neitun samstarfsmanna sinna í ríkisstjórninni um að þennan vanda megi leysa.

Hæstv. forseti. Þetta vil ég láta koma hérna fram og ég tel rétt að víkja að þessu, einnig vegna ummæla fyrrverandi formanns fjárlaganefndar, Ólafs Arnar Haraldssonar, um að þessi mál þyrfti að leysa í sátt. Við stóðum í þeirri meiningu margir þingmenn, að það yrði gert.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.