131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:50]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það alveg kýrskýrt að það er stefna Sjálfstæðisflokksins að fella niður hátekjuskattinn. Það var ekki það sem ég taldi að við værum að rífast eða deila um. Ég var að tala um að ég og minn flokkur værum andvíg því að fara þessa leið, að fella niður hátekjuskattinn og teldum að komið væri að því að lagfæra frekar stöðu þeirra sem lægri hafa launin og það yrði best gert með því að hækka m.a. persónuafsláttinn og/eða, sem við höfum einnig flutt tillögur um ásamt öðrum stjórnmálaflokkum í stjórnarandstöðu, að flýta barnabótunum og láta þær koma til framkvæmda þegar á næsta ári. Þetta leggjum við til eingöngu vegna þess að, eins og staðan er núna, við teljum að ekki sé rétt forgangsröðun að byrja á því að lækka meira skatta á þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Ég vorkenni engum manni, engum einstaklingi sem er með meira en 400 þús. kr. á mánuði í kaup, þótt hann greiði 4% viðbótarskatt af tekjum umfram þá upphæð. Ég geri það ekki. Engu máli skiptir í hvaða stétt sá maður er, ég tel að slíkt sé röng forgangsröðun. Ég geri mér fyllilega ljóst að þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins. Ég er ósammála því að fara þessa leið.