131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:52]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en harmað að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sé ósammála því að fella niður hátekjuskattinn. Skatturinn er ekki miðaður við 450 þúsund eins og hann sagði, heldur er miðað við 350 þúsund. Við höfum alla tíð staðið saman um að það ætti að afnema hann, a.m.k. í gamla daga, hélt ég.

Hins vegar ítreka ég fyrri spurningu mína: Úr því menn telja það rangt að breyta þessu í prósentum og telja það réttara að breyta þessu í krónum, er það þá stefna Frjálslynda flokksins eða hv. þingmanns, að þegar kemur að skattabreytingum þá sé það gert í krónutölum, bæði þegar við hækkum og lækkum skatta? Við erum núna með svipaðan skatt eða heldur hærri en við vorum með þegar staðgreiðslan var tekin upp, hann var rúmlega 35% þá. Síðan hafa skattar hækkað mikið. Sú hækkun hefur alltaf verið í prósentum, en ekki í krónum. Nú erum við að lækka skatta aftur og þá verðum við að gera það í prósentum, ekki í krónum. Menn verða að hafa þetta alveg skýrt, vegna þess að ef menn vilja fara að leggja á skatta í krónum, þá eru það nefskattar, t.d. að hækka um 100 þúsund kall á hvern mann, þá eru það 100 þús. kr., burt séð frá því hvað hann þénar. Ég efast stórlega um að þetta geti verið stefna nokkurs flokks. Ég held að menn verði að vera alveg hreinir og skýrir í því þegar þeir eru að tala svona. Það kannski hljómar fallega að segja: „Við viljum ekki þessa prósentu vegna þess að þá lækka þeir mest sem hæstar hafa tekjurnar.“ En þeir hækka þá mest sem hæstar hafa tekjurnar, þegar skattarnir hækka. Það er engin önnur aðferð til að gera þetta en í prósentum.