131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:58]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir upplýsingarnar. Ef ég tók rétt eftir þá sagði hann að stærstur hluti af fyrirhuguðum niðurskurði í framkvæmdum mundi sennilega bitna á göngum milli Héðinsfjarðar, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

Einmitt af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra spurningar sem ég bar reyndar fram fyrr í haust. Hún er á þessa leið, hæstv. forseti:

Mér fyndist áhugavert fyrir okkur sem eigum að fara að meta hagkvæmni þess að skera niður eina framkvæmd frekar en aðra, að skoðað væri hver eru þensluáhrif þess þegar 40–50 karlar bora gat í gegnum fjall og þau verk sem þar eru unnin, þá auðvitað ásamt tækjum og öðru slíku.

Er hægt að leggja mat á hver þensluáhrifin voru af því að gera göng undir Almannskarð og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar? (Samgrh.: Ég er búinn að því einu sinni.) Nei, þú svaraðir nefnilega ekki. Þú svaraðir en án þess að geta svarað þessu nákvæmlega, vegna þess að ég hygg að þú hafir ekki þessar upplýsingar. Ég hygg að (Forseti hringir.) Seðlabankinn hafi þær ekki heldur.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmanninn um að ávarpa forseta en ekki einstaka þingmenn eða ráðherra.)

Hæstv. forseti. Ég þakka áminninguna.

Hæstv. forseti. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi alls ekki þessar upplýsingar. En það væri hins vegar mjög fróðlegt ef það yrði skoðað og menn gætu sagt okkur áður en við förum að ræða niðurskurð í verklegum framkvæmdum, hvaða áhrif framkvæmdirnar sem ég nefndi hefðu haft til að auka þenslu hér á landi, annars vegar Almannaskarðið og hins vegar göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.