131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:35]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt um hornin öll. Það er náttúrlega algjörlega ljóst að í málflutningi sem gengur út á að Seðlabankinn sé að gera tóma vitleysu en ríkissjóður að standa sig býsna vel með fjárlagafrumvarpi rekur sig hvað á annars horn.

Aðhaldsleysið í ríkisfjármálum veldur því að Seðlabankinn telur sig þurfa að grípa til þeirra aðgerða sem hann gerir. Skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum og óstjórnin á ríkisfjármálunum veldur því. Seðlabankinn hefur þá aðeins eitt úrræði eftir, eins og bankinn segir. Hann hefur lög til að fara eftir og verðbólgumarkmið til að fara eftir. Hann neyðist því til að hækka stýrivextina, að sjálfsögðu, væntanlega með skelfilegum afleiðingum fyrir heimili landsins og ýmislegt í atvinnulífinu. Það er þó talið mildara en það sem mundi gerast ef keyrt yrði áfram eftir stefnu ríkisstjórnar í ríkisfjármálum vegna þess að þá biði okkar líklega svipað ástand og árið 2001 þegar verðbólgan fór úr böndum.

Ég trúi því enn, herra forseti, að hv. þingmaður sé sammála mér um að mikilvægast sé að viðhalda stöðugleikanum.