131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:37]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur fundið hinn eina sanna sökudólg í vandræðum ríkisstjórnarinnar við að halda þjóðarskútunni réttri. Það er Seðlabankinn. Þetta minnir mann á það þegar Þjóðhagsstofnun sáluga var og hét og lét frá sér fara álit sem ríkisstjórninni féll ekki í geð. Þá var henni bara lokað umsvifalaust. Hv. þingmaður treystir sér væntanlega ekki til að loka Seðlabankanum en ætlar að tala alvarlega við þá.

En það sem vakti mesta athygli mína var þegar hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að beita þjóðina fortölum til að hún hætti að gera kröfur. Herra forseti, ég tel að lýðræðið byggist á því að þjóðin láti í ljós þarfir og sínar og óskir og geri kröfur en það sé ekki hlutverk okkar þingmanna að meta út frá okkur sjálfum þarfir hennar. (Forseti hringir.)

Ég vil líka segja það, herra forseti, að ég tel eðlilegt (Forseti hringir.) að þjóðin sé haldin óþoli á þessum tímum þegar sífellt er haldið á lofti hve gott við höfum það og hve vel okkur farnist.