131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:39]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega eiga þingmenn að láta í ljós skoðanir sínar. En jafnframt hljóta þingmenn að þurfa að hlusta á íbúa landsins, á hvað þeir telja þarft og nauðsynlegt í umhverfi sínu. Ég tel að stjórnmálamenn eigi að meta og skipuleggja aðferðir út frá því hvernig landsmenn láta í ljós skoðanir sínar á uppbyggingu og þörfum verkefnum víða um land.

Á þetta hefur einmitt skort mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar og reyndar tveggja síðustu ríkisstjórna einnig, eins og við sjáum hvað best á því hvernig byggðum landsins farnast. En hér er kannski komin skýringin, í máli hv. þm. hér áðan, að hann telji þetta bara kvabb og óþarfa kröfur.