131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:42]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Það er önnur tala sem er náttúrlega miklu drastískari, þ.e. spá Seðlabankans um að aukning einkaneyslu fari upp í 9%.

Ef Seðlabankinn hefur rétt fyrir sér með að samneyslan aukist svo mikið og einkaneyslan einnig þá aukast tekjur ríkisins náttúrlega gríðarlega, það gefur augaleið. En það yrðu falskar tekjur.

Ég get sagt það, virðulegur forseti, að þó að Seðlabankinn telji sér einhvern sóma í að segja að það ætti að vera 30–40 milljarða kr. afgangur af ríkissjóði þá er það bara tal einhverra manna úti í bæ. Það er engin pólitísk geta til þess við núverandi aðstæður, hvorki á Íslandi né í öðrum nærliggjandi löndum, að ná slíkum afgangi á ríkissjóð enda mega menn vita að peningar sem ríkið fær eru ekki frystir inni í einhverri geymslu. Sagan segir okkur að tilhneigingin er til að nota þá einmitt í þær þarfir sem borgararnir eðlilega gera kröfu til.