131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:51]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt eftir yfirlýsingar hv. þingmanns, varaformanns fjárlaganefndar, að forseti kalli til fundar með þingflokksformönnum og leiti leiða til að ná samstöðu um framvindu umræðunnar sem skapi fjárlaganefnd svigrúm til að taka málið aftur til umræðu og fara yfir þó ekki væri nema forsendur fjárlaga vegna þess að áður hefur verið bent á það í dag að forsendur fjárlaga væru gersamlega brostnar miðað við endurskoðaða þjóðhagsspá Seðlabankans. Hér í umræðunni hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, talsmaður stærri stjórnarflokksins, einnig fullyrt að forsendur fjárlagafrumvarpsins sem ekkert hafa breyst í meðförum þingsins séu einnig brostnar þó það sé af öðrum ástæðum heldur en Seðlabankinn hefur komist að niðurstöðu um.

Í fyrsta lagi sagði hv. þingmaður að aðgerðir Seðlabankans, sem ákveðnar voru í gær, breyttu forsendum vegna þess einfaldlega að þær sköpuðu meiri hættu í efnahagslífinu, mundu skapa atvinnulífinu mikinn vanda og líklega auka á þensluna. Í öðru lagi sagði hv. þingmaður að bankakerfið sem slíkt hefði með miklu innstreymi fjármagns einnig aukið á einkaneysluna og skapað verulega hættu. Hv. þm. hefur þó með öðrum hætti en við tekið undir það að forsendur fjárlaganna hafi algerlega breyst. Ég held að það hljóti að vera okkur öllum sama keppikeflið að fjárlög séu sem réttust og til þess að þau geti verið það er algerlega nauðsynlegt að þau séu byggð á réttum forsendum. Nú liggja fyrir upplýsingar um að forsendurnar eru a.m.k. mjög hæpnar, herra forseti, og þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að óska eftir því að við reynum með sátt og samlyndi að tryggja það að fjárlög næsta árs verði sem allra best því ekki veitir af í því ástandi sem efnahagslífið er nú.

Herra forseti. Ég vísa í þessu sambandi til 23. gr. þingskapa þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.“

Herra forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að um þetta náist samstaða þannig að það sé líka hægt að semja um það hvenær umræðunni verður frestað því það er lykilatriði að málið fari til nefndarinnar áður en umræðu lýkur. Það er í rauninni það eina sem þingsköpin segja varðandi þetta mál. Ég óska því í fullri vinsemd eftir því við herra forseta að málið verði kannað sem allra fyrst á sameiginlegum fundi forseta með þingflokksformönnum.