131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel enga ástæðu til að fresta umræðunni og afgreiðslu fjárlaga vegna þjóðhagsspár Seðlabankans frá því í gær. (Gripið fram í.) Það var vitað að von væri á nýrri þjóðhagsspá frá Seðlabankanum á þessum tíma og það hefur legið fyrir allt frá því að við byrjuðum að fjalla um fjárlagafrumvarpið að fjármálaráðuneytið mun endurskoða þjóðhagsspá sína í byrjun næsta árs og ég get ekki séð að Seðlabankinn sé að spá hruni eða neyðarástandi í sinni þjóðhagsspá. Þar birtist hins vegar aðvörun og áminningar um aðhald og festu í ríkisrekstri og það samrýmist auðvitað þeim markmiðum og því sem stjórnarflokkarnir hafa verið að vinna að, að við verðum einfaldlega að halda útgjaldavexti ríkissjóðs í skefjum. Við erum öll sammála um það.

En ég velti því fyrir mér hvað stjórnarandstaðan ætlar að fá út úr því að fresta umræðunni og afgreiðslu fjárlaganna núna út af þessu máli. Eru menn að hugsa um að fara ofan í fjárlagafrumvarpið allt aftur eins og við höfum verið að gera á síðustu vikum? Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst þetta bera keim af ákveðnu sjónarspili og kannski kryddi í umræðuna, sem er svo sem ágætt, aðeins að rífa okkur upp og krydda umræðuna.

Það liggur fyrir eins og ég sagði að ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins mun birtast í byrjun næsta árs. Við hljótum að fara yfir hana og fylgja henni eftir ef ástæða þykir til vegna þess að við viljum halda utan um ríkisfjármálin af ábyrgð og festu og við höfum gert það og við ætlum okkur að gera það áfram. En ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel ekki ástæðu til að þessari umræðu verði frestað og málið tekur aftur fyrir í fjárlaganefnd.