131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:59]

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að hæstv. forseti hafi vit fyrir framkvæmdarvaldinu núna og taki undir með okkur þingmönnum þar sem við förum fram á að 3. umr. um fjárlög verði frestað vegna þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um mjög breyttar efnahagsforsendur eftir að Seðlabankinn kynnti spá sína í gær. Það hlýtur að vera krafa okkar á hverjum tíma og jafnframt krafa þingsins að þau lög sem við afgreiðum frá okkur séu eins nákvæm og nokkur kostur er. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir þá verða þau lög sem við ætlum að fara að afgreiða hér, ljúka umræðu um í dag, 3. umr. um fjárlög, hvorki fugl eða fiskur. Og ég vona satt að segja, herra forseti, eftir að forseti hefur hugsað málið þá sjái hann að við höfum rétt fyrir okkur og að full ástæða sé til þess að kalla saman þingflokksformenn til að skoða hvernig við höldum áfram.

Við höfum nógan tíma. Desember er rétt byrjaður og við hljótum að geta tekið nokkra daga til að skoða þær breytingar sem nú blasa við í efnahagsforsendum í okkar þjóðarrekstri. Ef við skoðum fjárlagafrumvarpið, Stefnu og horfur sem fylgdu fjárlagafrumvarpinu, þá segir þar um nokkrar forsendur, með leyfi forseta:

„Litlar breytingar hafa orðið á framvindu stóriðjuframkvæmda á næstu árum frá síðustu spá í maí.“

Seðlabankinn segir: „Umfang stóriðjuáforma hefur vaxið, einkum á næsta ári, bæði vegna áforma Norðuráls og breytingu á tímasetningum framkvæmda Fjarðaáls.“ — Þarna er ein forsenda brostin.

Hér er forsenda um gengisþróun sem segir að gengisvísitalan verði að meðaltali um 122 stig árið 2004 en hækki síðan í 125 stig árið 2005 sem þýðir um 2,5% lækkun íslensku krónunnar. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að íslenska krónan muni veikjast stig af stigi og er þá tekið mið af minnkandi gjaldeyrisinnflæði á næstu árum. Þessu til viðbótar ber að hafa í huga að með vaxandi viðskiptahalla myndast aukinn þrýstingur á krónuna til lækkunar. Ég heyrði ekki betur en að hv. varaformaður fjárlaganefndar væri einmitt að vara við því að gengið væri að styrkjast en ekki lækka.

Önnur mikilvæg forsenda sem tiltekin er í Stefnu og horfum fjárlagafrumvarpsins er að nýgerðir kjarasamningar samtaka launþega og atvinnurekenda muni einnig gilda í megindráttum fyrir þau stéttarfélög sem ekki hafa endurnýjað kjarasamninga sína. Er verið að tala um kennarasamningana þarna eða um hvaða samninga er verið að tala? Það er búið að gera nýja samninga síðan þetta var gefið út og full ástæða til fyrir okkur að skoða hvernig við tökum á þeim veruleika sem þar blasir við.

Kafli efnahags- og viðskiptanefndar er alveg sérstakur í þessu máli. Hér segir í þingsköpum: „Til efnahags- og viðskiptanefndar vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps.“ Hún á að fara yfir þetta og skila okkur áliti. Hún gerði það og segir að spá um þjóðhagsforsendur hafi ekki verið breytt frá framlagningu frumvarpsins. Fulltrúi Seðlabankans kom í gær til efnahags- og viðskiptanefndar og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tilkynnti að hann teldi ekki þörf á því að breyta áliti sínu þó fram væri komin ný þjóðhagsspá.