131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:26]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hafa menn rætt um að fresta þessum fundi til að gefa sér tíma til að skoða mállin í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa verið að koma fram. Ég verð satt að segja að segja að ég undrast mjög að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson skuli ekki taka undir þá kröfu eftir ræðu sína í dag þar sem hann lýsti því hvers konar fár mundi verða í samfélaginu í kjölfarið á tiltektum Seðlabankans. Það er eiginlega ótrúlegt hvernig þessi hv. þingmaður kemur stundum í umræður og í þessu tilfelli keyrir úr hófi. Hann spilar út sínum stærstu ásum og kemur svo aftur í ræðustól og segir að það eigi bara ekkert að gera með þetta, að við skulum bara halda áfram og klára fjárlagaumræðuna og afgreiða hana í kvöld eða nótt.

Voru þá þessi ræðuhöld bara til að draga athygli að hv. þingmanni eða var einhver meining með þeim? Fjárlögin eru framlag hins opinbera til að halda stöðugleika í þjóðfélaginu og þegar forsendur fyrir þeim breytast snarlega eins og mátti vel heyra á ræðu hv. þingmanns að mundi vera að gerast þá hljóta menn að þurfa að fara yfir málið aftur og velta fyrir sér hvað sé hægt að gera í því að koma til móts við þær breytingar sem liggja í loftinu.

Ég ætla ekki að gagnrýna Seðlabankann fyrir það sem hann gerði einfaldlega vegna þess að þar á bæ telja menn að staðið hafi verið þannig að málum í samfélaginu að grípa þurfi í neyðarbremsuna. Þetta eru þau tæki sem Seðlabankinn hefur í höndunum. Það má velta því fyrir sér hvort of langt sé gengið er Seðlabankinn hættir að kaupa gjaldeyri og bætir í vaxtahækkanir eins og gert var í gær. En ef afleiðingar þess verða eitthvað líkar því sem menn hafa talað um hér þá hljóta þeir að þurfa að fara yfir málin aftur.

Það er svo pínulítið hagkerfi í þessu landi að það ætti að vera orðið hverjum manni ljóst að ef þeir nota ekki öll ráð til að stjórna því af skynsemi þá muni illa fara. Frá greiningardeildum bankanna hefur borist að þeir sem hafa tekið stöðu með krónunni eins og það er kallað, gjaldeyriskaupendur eða þeir sem kaupa margvísleg skuldabréf á markaði, séu orðnir miklu stærri í þeim hlutum en þeir voru 2002 þegar gengið féll og að þeir munu að öllum líkindum hverfa á braut eftir ár. Eftir akkúrat ár munu þeir hverfa á braut. Hvernig fer þá fyrir íslensku samfélagi? Eigum við þá ekki von á svipaðri kollsteypu eða miklu verri en 2002?