131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:31]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með viðbrögð hæstv. forseta við þeirri málefnalegu ósk að gert yrði örstutt hlé á fundi á meðan þingflokksformenn funduðu og reyndu að komast að samkomulagi um framvindu umræðunnar. Ég taldi mig færa málefnaleg rök fyrir þessari ósk og ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi gert það einnig, bæði í ræðu sinni í dag og þegar hann kom í umræðuna, vegna þess að hv. þingmaður sagði að ærin ástæða væri til þess að ræða efnahagsmál.

Hvað er fjárlagaumræðan annað en umræða um efnahagsmál? Það er stærsta umræðan sem fram fer á þingi um efnahagsmál. Ég verð því að óska eftir því við hæstv. forseta að hann íhugi enn betur hvort ekki megi verða við þessari ósk okkar vegna þess að ella verðum við að kanna hvort ekki sé rétt að leggja fram tillögu um að fjárlagafrumvarpið verði aftur sent til fjárlaganefndar og byggja á ákvæðum í 23. gr. þingskapalaga.

Mér skilst að vísu á reyndum hv. þingmönnum að það hafi aldrei verið gert áður en það gæti verið ástæða til þess nú ef hæstv. forseti getur ekki orðið við þessari beiðni sem, eins og ég hef margtekið fram og fleiri hv. þingmenn, er afskaplega málefnaleg og er lögð hér fram í fyllstu alvöru. Hún er lögð fram til að menn megi ná sáttum um umræðuna, hún er lögð fram til þess að við getum bætt fjárlögin, vegna þess að það hefur komið fram hér ítrekað að það er býsna mikilvægt að fjárlögin séu sem allra best tengd raunveruleikanum.

En, herra forseti, þau viðhorf sem komið hafa fram til fjárlaga eru hálfskelfileg. Fram hefur komið hjá báðum þeim fulltrúum sem hér hafa talað fyrir hönd stjórnarliðsins, það er nú allur fjöldinn, tveir hv. þingmenn, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, hafa verið þátttakendur í umræðunni. En við skulum ekki gleyma því að það er 100% fjölgun frá 3. umr. um fjáraukalög. (Gripið fram í.) Væntanlega verður aftur 100% fjölgun á næsta ári og fjórir munu taka þátt.

Þetta viðhorf er skelfilegt og lýsir sér í því þegar horft er á ráðherrabekkina. Hér er ekki einn einasti hæstv. ráðherra við umræðuna, (Gripið fram í: Að ræða fjárlög.) ekki einn einasti. Tveir hv. þingmenn taka þátt í umræðunni. Svo kemur hv. þm., formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, og talar um sjónarspil og krydd í umræðuna, að hér sé komið fram með málefnalega ósk um að við vöndum vinnubrögð. Ég hélt að hv. þingmaður, sem er ekki búinn að vera svo lengi formaður fjárlaganefndar, væri ekki orðinn svo samdauna ástandinu að hann væri orðinn á móti því að menn vönduðu verk sín.

Herra forseti. Ég ítreka enn beiðni mína um að virðulegi forseti íhugi betur hvort ekki er hægt að verða við þessari litlu, einföldu ósk.