131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:34]

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér er spurn hvort þingmenn stjórnarliðsins hafi skuldbundið sig sem jólasveina einhvers staðar, því hér er lögð rík áhersla á að þingið komist heim 13 dögum fyrir jól, virðulegur forseti. Mér er það umhugsunarefni hvað kallar þingmenn stjórnarliðsins heim til sín einmitt 13 dögum fyrir jól (Gripið fram í: Jólasveinar …) úr því að þeir eru tilbúnir til þess að afgreiða fjárlagafrumvarpið, grundvallarrit um efnahagsmál íslensku þjóðarinnar fyrir heilt ár, vitandi vits um að forsendur þess séu rangar.

Ég árétta það sem fram kom í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar áðan að vera kann að flytja þurfi tillögu um það, þótt einsdæmi sé, að vísa frumvarpinu aftur til fjárlaganefndar, að efna þurfi til atkvæðagreiðslu. Ég treysti því að þingmenn stjórnarliðsins geti þá mætt til þeirrar atkvæðagreiðslu og séu ekki uppteknir við aðrar skuldbindingar í jólamánuðinum.

Ég hlýt að kalla eftir því, virðulegur forseti, að þingmenn séu virtir þess að þau lög sem þeir afgreiði frá Alþingi séu sómasamlega frágengin og að hér gangi ekki forusta ríkisstjórnarinnar í ræðustólinn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og lýsi því yfir að þær forsendur sem hér séu undir, m.a. um gengi íslensku krónunnar, séu ekkert að marka. Við hljótum að hafa tíma til þess að taka eitthvað af þeim 13 dögum eða ef í það fer þessu nærri tveggja mánaða jólafríi þingmanna, sem hlýtur að vera einsdæmi norðan Alpafjalla að nokkur starfsstétt sé með hátt í tvo mánuði í jólafrí. Ég skora á þingmenn stjórnarliðsins að sýna þann metnað að leggja í þá vinnu í desembermánuði sem þarf til þess að hafa frumvarpið sæmilega rétt og hvet hæstv. forseta til þess að gera hlé á fundi og kalla saman formenn þingflokka til umræðna um þetta.