131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:49]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mætti ég fara þess á leit að hæstv. dómsmálaráðherra verði gert viðvart um það að nærveru hans sé óskað í þessum sal.

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að reynt var að koma skilaboðum til hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í dag vegna óskar um að hann yrði hér. En þess má geta að hæstv. dómsmálaráðherra er með varamann inni á þingi vegna embættisferða erlendis. (SJS: Hver gegnir fyrir hann?) Forseti skal kanna hver gegnir embætti dómsmálaráðherra í fjarveru dómsmálaráðherra. )

Ég þakka fyrir.

Herra forseti. Góð hagstjórn felst ekki í því einu að setja fram áferðarfallegar áætlanir heldur í því að setja fram raunhæf markmið og standa við þau. Góð hagstjórn hlýtur að felast í því að læra af reynslunni og fylgjast vel með því hvernig fram vindur í rekstrinum.

Þegar fulltrúar ráðuneyta komu hver á fætur öðrum á fund fjárlaganefndar í upphafi fjárlagavinnunnar óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum um stöðu stofnana sem undir viðkomandi ráðuneyti heyra þann 1. september og áætlaða stöðu um næstu áramót. Hluta þeirra upplýsinga var fyrst skilað til okkar fyrir nokkrum dögum eftir margítrekaðan eftirrekstur af hálfu starfsmanna fjárlaganefndar. Þá vantaði enn upplýsingar um áætlaða stöðu um áramót og einnig stöðu stofnana um síðustu áramót. Sumar stofnanir taka með sér halla yfir á nýtt ár en aðrar taka með sér afgang frá síðasta ári.

Fjárveitingar yfirstandandi árs segja ekki alla söguna um rekstrargrundvöll viðkomandi stofnana. Upplýsingar um stöðuna um síðustu áramót bárust nokkrum dögum á eftir stöðunni í september en enn eru ekki komnar upplýsingar um áætlaða stöðu við næstu áramót. Þó er aðeins tæpur mánuður til áramóta. Maður kemst ekki hjá því að spyrja sig, virðulegi forseti, hvort verið geti að forstöðumenn stofnana leitist ekki við að hafa hugmynd um hvernig rekstrinum er komið við þau tímamót. Mundi forstöðumaður í almennum rekstri ekki telja sig þurfa að vita nokkurn veginn hvernig rekstri yfirstandandi árs reiddi af áður en hann gerði endanlegar áætlanir um rekstur komandi árs? Ég held að svarið við þeirri spurningu sé jú. Ég spyr því: Hvað er öðruvísi við opinberan rekstur? Ekkert, virðulegi forseti. Það er fráleitt að gera áætlanir um rekstur án þess að skoða fortíðina og læra af henni á sama tíma og markmið eru sett um rekstur til framtíðar.

Þessar staðreyndir um lélega upplýsingaöflun og upplýsingaskort vekja furðu og spurningar um fjárlagagerðina, hvernig hún fari fram. Á hverju byggist hún. Ekki er að sjá að farið sé í saumana á rekstrinum og rótarinnar að vanda stofnananna leitað. Ár eftir ár glíma sömu stofnanir við rekstrarvanda. Slík endurskoðun mundi óhjákvæmilega leiða til þess í ýmsum tilfellum að auka þyrfti framlög á fjárlögum, t.d. til framhaldsskóla. Þeir hlíta lagaboði með því að veita skólavist þeim sem sækja um en komast í rekstrarvanda. Stjórnendum er haldið í óvissu og úlfakreppu meiri hluta ársins. Þeir fá ekki að vita hvaða fjármuni þeir hafa til rekstrarins fyrr en um eða eftir áramót, löngu eftir að útgjöld hafa fallið til.

Það virðist árátta ráðuneyta, og fer vaxandi, að halda hluta þess fjármagns sem ætlað er til rekstrar stofnana eftir í svokölluðum pottum í ráðuneytinu og deila út seint og um síðir eftir reglum sem eru framhaldsskólunum ekki ljósar fyrir fram. Framhaldsskólar hafa fengið fjárveitingu á fjáraukalögum ár eftir ár. Það er ekki vegna þess að almennt sé neitt sérstakt athugavert við rekstur þeirra heldur vegna þess að ríkisvaldið vill ekki horfast í augu við raunverulegar aðstæður.

Háskólarnir eru annað árlegt vandamál. Þar er árleg fjárvöntun vegna fjölgunar nemenda. Fjölgun nemenda er í sjálfu sér ánægjuleg en skapar úrlausnarefni sem reikna verður til enda. En ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við staðreyndir og takast á við vandamál.

Herra forseti. Helstu atriði efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar frá í haust voru eftirfarandi:

Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Að viðhalda jafnvægi í fjármálum ríkisins. Umbótum í ríkisrekstri verði haldið áfram.

Að nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum.

Að treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar.

Allt eru þetta fögur og fín markmið. En við skoðun virðast þau því miður runnin út í sandinn og engar líkur á að neitt af markmiðum hennar náist.

Seðlabankinn staðfesti síðast í gær þær ljótu blikur sem eru á lofti varðandi jafnvægi og stöðugleika, allar spár eru úr skorðum gengnar nú þegar. Svigrúmið til að auka kaupmátt er nýtt til að skara eld að köku þeirra sem betur mega sín í samfélaginu. En sú hefur verið reyndin í tíð núverandi ríkisstjórnar frá upphafi. Undirstaða byggðar í landinu veikist dag frá degi án nokkurs viðnáms. Jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar eru lítið annað en orðin tóm, eða: Er aðeins átt við örfáa staði á landinu þegar skrifað er og sagt „á landinu“? Það sýnist mér.

Fjárlög eiga að virka sem aðhaldstæki í rekstri og ef þau gera það ekki þarf að leita skýringa og bregðast við samkvæmt þeim. En meðan áætlanagerðin tekur ekki mið af staðreyndum er ekki við því að búast að fjárlög stýri ríkisrekstrinum eins og þeim er ætlað samkvæmt fjárreiðulögum.

Fjárlagafrumvarpið einkennist sem fyrr af því að horft er fram hjá vandanum og megináherslan lögð á að bregða upp leiktjöldum. Svokallaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar reynast skattahækkanir þegar upp er staðið, ekki nóg með það heldur er reytt af öllum almenningi til að stinga í vasa þeirra sem nóg hafa fyrir. Regla ríkisstjórnarinnar „því meira óréttlæti því betra“ er höfð í heiðri sem aldrei fyrr. Því meira sem menn eiga og þéna þeim mun meira fá þeir í skattalækkun, sem ríkisstjórnin safnar í úr vösum almennings. Fyrir almenning eru þetta ekki góð fjárlög, virðulegi forseti.

Nú mun ég gera grein fyrir breytingartillögum sem stjórnarandstaðan gerir við þessa síðustu umræðu um fjárlög.

Fyrst eru tillögur frá mér og hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, Helga Hjörvar, Jóni Gunnarssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, þingmönnum Samfylkingar og Frjálslynda flokksins.

Í skatttekjum gerum við ráð fyrir 4.750 þús. kr. hækkun sem rekja má til þess að við viljum ekki að skattalækkunin sem ríkisstjórnin leggur til taki gildi. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 750 millj. kr. vegna herts skatteftirlits. Við teljum það reyndar varlega áætlað sem hert skatteftirlit mun skila.

Við gerum tillögu um að tekjuskattur lögaðila hækki um 100 millj. kr. með hertu skatteftirliti.

Í liðnum Virðisaukaskattur gerum við ráð fyrir 1,5 milljörðum kr. í mínus. Það má rekja til tillögu okkar um matarskatt sem við gerum ráð fyrir að tæki gildi á miðju árinu 2005. Sú tillaga mun kosta 2,5 milljarða en við reiknum með að ná inn milljarði með skatteftirliti.

Við gerum ráð fyrir að Háskóli Íslands fái 220 millj. kr. í kennslu að auki og 250 millj. kr. í rannsóknir og önnur verkefni. Háskólinn á Akureyri fái 100 millj. kr. að auki og Kennaraháskóli Íslands sömuleiðis. Framhaldsskólar almennt fái 330 millj. kr.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga á að fá 700 millj. Öllum er kunnugt um þau vandræði sem sveitarfélögin glíma við og veitir örugglega ekki af þessu fjármagni til að rétta hlut þeirra. Það þyrfti reyndar að vera hærra og þyrfti að vera það hátt að sveitarfélögin gætu stutt við atvinnulíf í byggðum sínum en eins og öllum þingmönnum, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, er kunnugt um er atvinnulíf víða á landinu mjög bágborið og víðast hvar er ekkert fjármagn til þess að standa undir nýsköpun og nýjungum í því efni. Ríkisstjórnarmeirihlutinn felldi m.a. tillögu við 2. umr. um fjármagn til Byggðastofnunar sem nýta átti í nýsköpun og eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni.

Við leggjum til að 200 millj. verði varið í innheimtukostnað við hert skatteftirlit. Það er öruggt að hert skatteftirlit skilar sér mjög og telja vísir menn að hver króna sem varið er í það skili sér a.m.k. tífalt. Það er eftir einhverju að slægjast þar.

Við leggjum til að Samkeppnisstofnun fái 100 millj. og þarf vart að skýra fyrir nokkrum manni hver þörf er þar á, svo nýlegt er dæmið um hve langan tíma rannsókn á t.d. samráði olíufélaganna tók, öllum til skaða og mest íslenskum neytendum.

Við gerum ráð fyrir því að önnur útgjöld ráðuneyta verði lækkuð um 600 millj. kr., að yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneyta verði frestað sem nemur 5 milljörðum kr. Ráðuneytin eru með á sínum snærum sífellt hækkandi upphæð óráðstafaðs fjár, lítur út fyrir að það hafi verið 16 milljarðar á síðasta ári og engin ástæða til að láta það liggja svona.

Við leggjum til að ferða- og risnukostnaður ráðuneyta verði lækkaður um 600 millj. og sérfræðikostnaður A-hluta stofnana verði lækkaður um 1,3 milljarða.

Ríkisendurskoðun sendi frá sér ekki alls fyrir löngu skýrslu um þessi mál og þar kom fram að líklegt væri að í þessum lið mætti spara verulega fjármuni.

Einnig leggjum við til að eignir utanríkisráðuneytisins erlendis verði seldar fyrir 1 milljarð kr. og að andvirðið verði látið renna í ríkissjóð.

Þá geri ég grein fyrir breytingartillögu sem er flutt af öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar frá A til Ö og hún hljóðar svo:

Breytingar á sundurliðun 2:

Við lið 03-190 Ýmis verkefni, 1.23 Mannréttindamál orðist liðurinn svo: Mannréttindaskrifstofa Íslands fái 1 millj., þ.e. 5 millj. verðir veittar til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Undir liðnum 06-190 Ýmis verkefni fái Mannréttindaskrifstofa Íslands einnig 5 millj. samtals. Við bætum 1 millj. við, auk þess sem við leggjum til að fjárlagaliðurinn sem var á fyrra frumvarpi fyrir þetta ár haldi sér en verði sem sagt hækkaður um 1 millj. Mannréttindaskrifstofa Íslands fengi þannig samtals 10 millj. á þessum tveim fjárlagaliðum. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fái hins vegar nýtt fjárlaganúmer og 1 millj.

Eins og kunnugt er, herra forseti, hyggur ríkisstjórnin á breytingar í þessu efni þannig að Mannréttindaskrifstofa Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fái ekki sérfjárveitingu á fjárlögum, heldur verði þetta sett á annan lið undir dómsmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti sem nefnist Mannréttindamál, almennt. Við þessu hafa borist víðtæk mótmæli, m.a. frá UNIFEM á Íslandi, frá Biskupsstofu, stjórn Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, frá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna, frá Åbo akademi, Institute for Human Rights og fjölda annarra stofnana og einstaklinga.

Enn fremur hafa borist athugasemdir frá Amnesty International og ég ætla með leyfi forseta að lesa úr bréfi Amnesty International sem gefur góða sýn á þróun þessa verkefnis eða þessarar skrifstofu og verkefni hennar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Íslandsdeild Amnesty International er eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun skrifstofunnar, ásamt Barnaheillum, Rauða krossi Íslands, UNIFEM á Íslandi, Biskupsstofu, Jafnréttisstofu og fleiri félögum og samtökum. Hvert aðildarfélag starfar að afmörkuðu sviði mannréttinda og/eða mannúðarmála og með stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir aðildarfélögin til að samhæfa mannréttindastörf á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar félaganna. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt, staðið hefur verið fyrir fjölmörgum málþingum, yfirgripsmiklar umsagnir um lagafrumvörp hafa verið lagðar fram ásamt viðbótarskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, komið hefur verið á fót bókasafni með efni um mannréttindi, stuðlað hefur verið að fræðslu á sviði mannréttindamála og ýmsar bækur og rit verið gefin út á vegum Mannréttindaskrifstofunnar.

Á öllum Norðurlöndum, í flestum Evrópuríkjum og víða annars staðar um heiminn starfa mannréttindaskrifstofur sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið í samvinnu við. Mest samvinna hefur verið við skrifstofurnar á Norðurlöndum og hefur Mannréttindaskrifstofan skipulagt ráðstefnur og fundi hér á landi með fulltrúum ýmissa erlendra mannréttindaskrifstofa. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar SÞ um framfylgd samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem eins framlags ríkisins til eflingar mannréttinda á Íslandi, og var því fagnað af hálfu eftirlitsnefndarinnar.

Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda og hafa ekki umboð til að fjalla um öll mannréttindi í starfsemi sinni. Mannréttindaskrifstofan hefur umboð til að fjalla um öll mannréttindi og sem slík er hún mjög mikilvæg, t.d. við gerð umsagna við lagafrumvörp og veitir hún löggjafanum mikilvægt aðhald sem nauðsynlegt er í hverju lýðræðissamfélagi.

Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að þeir fjármunir nýtist illa og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Eins og fram hefur komið standa flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi að Mannréttindaskrifstofunni og stjórn Íslandsdeildar Amnesty International telur að fjármagni til mannréttindamála sé vel varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja þannig sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu, þannig að Mannréttindaskrifstofan geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.“

Þarna, herra forseti, liggur einmitt eitt kjarnaatriðið, þ.e. mikilvægi þess að Mannréttindaskrifstofa Íslands sé óháð í störfum sínum og alls ekki háð velvild einstaka ráðuneyta eins og stefnt er í með þessari fyrirhuguðu breytingu sem ég satt að segja vona að hæstv. ríkisstjórnin taki til endurskoðunar.

Ég ætla líka að leyfa mér að vitna í hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 1. desember. Þar er vitnað til viðtals við Louise Arbour, sem er mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, en hér segir, með leyfi forseta:

„Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, kveðst ætla að fylgjast grannt með þróun mannréttindamála á Íslandi eftir að stjórnvöld ákváðu að hætta að styrkja Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún segir að málaflokknum sé best borgið hjá sjálfstæðri stofnun sem heyri undir þjóðþing hvers lands.“

Þetta liggur í rauninni alveg í augum uppi, herra forseti, og mér finnst afar dapurlegt að við þurfum að vera að ræða þessi mál hér í dag og standa frammi fyrir því að við erum að vekja athygli erlendis fyrir þessa neikvæðu breytingu sem hér eru lögð drög að.

Herra forseti. Ég veit að hér á Alþingi á Mannréttindaskrifstofa Íslands ýmsa velvildarmenn. Ég ætla rétt að vona að þeir velvildarmenn innan stjórnarliðsins og þeir sem skilja mikilvægi þess að Mannréttindaskrifstofan sé sjálfstæð, haldi því sjálfstæði sem hún hafði áður, hysji upp um sig buxurnar og styðji þessar tillögur okkar, allra stjórnarandstöðuflokkanna, hvers og eins einasta.