131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil láta það koma fram í upphafi máls míns að um hádegisbilið í dag, skömmu eftir að ég setti mig á mælendaskrá í þessari umræðu, aðvaraði ég forseta um að ég óskaði nærveru hér helst þriggja ráðherra, þ.e. hæstv. dómsmálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Að sjálfsögðu gekk ég út frá því að hæstv. fjármálaráðherra yrði hér viðstaddur. Ég hef vanist því lengst af á ferli mínum hér á Alþingi, í 22 ár bráðum, að ráðherrar yrðu við óskum af þessu tagi og mættu til umræðu þegar réttmætt er að eftir því sé kallað. Það er í þeim tilvikum þegar frumvörp eða þingmál eru á dagskrá sem varða þeirra ráðuneyti beint og alveg sérstaklega þegar rædd eru fjárlagafrumvörp. Þá er brýnt að fagráðherrar séu viðstaddir ásamt með fjármálaráðherra til að svara spurningum um sína málaflokka.

Nú veit ég að hæstv. forsætisráðherra er í salnum og þykir mér gott að vita af því, einnig hæstv. fjármálaráðherra sem er kominn hér. Upplýst er að dómsmálaráðherra sé erlendis en að utanríkisráðherra gegni fyrir hann og auðvitað þætti mér best ef hæstv. utanríkisráðherra gæti þá komið og svarað spurningum sem slíkur og sem starfandi dómsmálaráðherra en komi hann því ekki við mun ég svo sem ekki gera frekari athugasemdir við það.

Ég ætla að byrja á að snúa mér að því sem ég ætla að ræða við dómsmálaráðherra og núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherra, sem sagt núverandi hæstv. forsætisráðherra, og það varðar það sem hv. síðasti ræðumaður gerði hér reyndar ágætlega grein fyrir. Vona ég að ráðherra hafi heyrt það, það eru málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Ég held að það mál sé gott dæmi um lítið mál en stórt prinsippmál. Það er auðvitað ekki mikið í tölum talið sem fer í þessa litlu skrifstofu, sá stuðningur ríkisvaldsins við rekstur hennar sem verið hefur á fjárlögum undanfarin ár, 8 millj. kr. eða svo. Þess vegna má segja að menn leggist lágt, menn lúti að litlu og meinbægnin dragi menn langt þegar þeir fara að þjóna lund sinni með því að taka Mannréttindaskrifstofu Íslands út af föstum fjárlögum og láta hana sæta því að sækja — undir hverja? — framkvæmdarvaldið, undir ráðherrana, um tilverugrundvöll sinn á ári hverju.

Auðvitað varðar það sóma Alþingis að láta ekki ráðherrana komast upp með þetta, en það er því miður þannig eins og við vitum að hér er múlbundinn meiri hluti sem aldrei hreyfir sig og gerir aldrei neitt ef það er í móti vilja ráðherranna og sérstaklega formanna stjórnarflokkanna.

Satt best að segja batt ég vonir við að menn sæju sóma sinn í að reyna að lagfæra þetta mál, og reyndi að tala fyrir því þar sem ég kom því við alveg fram á síðustu stundu. En úr því að svo er ekki þá er ekkert annað að gera en að gagnrýna það eins og gagnrýni er vert, að menn skuli ætla að láta þetta ganga svona til enda. Það er öllum til skammar, ekki bara ráðherrunum sem þarna hafa greinilega verið tillögumenn, heldur líka og ekkert síður hverjum og einum þingmanni sem ætlar að láta það ganga yfir Alþingi að loka fjárlögunum með þessum hætti.

Hvar eru nú ræðurnar um sóma og virðingu Alþingis sem haldnar voru hér í vor og sumar þegar menn töldu að Alþingi væri að lúta í gras fyrir forseta lýðveldisins? Ætli það sé nú ekki stundum í öðrum tilvikum sem sómi Alþingis verður kannski hvað minnstur, t.d. í grundvallarmáli af þessu tagi, algeru prinsippmáli? Að aðili eins og Mannréttindaskrifstofan skuli ekki njóta þess stuðnings og sjálfstæðis sem henni ber til að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Það er ekki eins og þetta sé fyrst að koma til umræðu núna hversu mikilvægt er talið að hafa í hverju landi öflugan sjálfstæðan aðila sem m.a. getur gagnrýnt stjórnvöld og veitt þeim aðhald. Það er fylgst með því erlendis frá hvernig mannréttindamálum er fyrir komið í hverju landi fyrir sig af því að mannréttindamálin eru kannski orðin alþjóðlegri en flest annað og eru það auðvitað í eðli sínu. Þau eru algild og eiga ekki að vera háð landamærum. Réttur mannsins samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er helgur og hann er algildur og mönnum ber að beita sér fyrir því hvar sem er á byggðu bóli að grundvallarmannréttindi samkvæmt alþjóðasamningum, og alveg sérstaklega stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, séu virt. Og til þess hafa menn sjálfstæða, óháða aðila að fylgjast með framgöngu stjórnvalda, veita upplýsingar, ráðgjöf, umsögn um lagasetningu og annað í þeim dúr.

Íslensk stjórnvöld hafa á köflum stært sig af því að hér sé starfandi sjálfstæð mannréttindaskrifstofa sem skili hlutverki sínu. Það skyldi nú ekki vera að hæstv. fyrrv. utanríkisráðherra hafi í skýrslugjöf til Sameinuðu þjóðanna alveg sérstaklega tilgreint hlutverk Mannréttindaskrifstofunnar í því að vera stjórnvöldum til aðhalds og eftir atvikum ráðgjafar og umsagnar?

Þannig t.d. hvetja Sameinuðu þjóðirnar aðildarríki sín til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofa, og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um framfylgd samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þá var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem eins og framlag ríkisins væri til eflingar mannréttinda á Íslandi og var því fagnað af eftirlitsnefndinni.

Íslensk stjórnvöld hafa sérstaklega tilgreint með hvaða hætti þessi starfsemi væri studd af hinu opinbera og því hefur síðan verið fagnað af eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna, sömu eftirlitsnefndinni og núna hefur þegar gert vart við sig og sagt að hún muni fylgjast grannt með framvindu mála á Íslandi hvað þetta varðar. Þurfum við að taka svona lagað á okkur? Er sóma landsins best borgið með því að standa í skaki af þessu tagi, sem þegar hefur vakið mikla athygli langt út fyrir landsteinana?

Ég er með skeyti og orðsendingar frá allmörgum virtum erlendum samtökum og stofnunum á sviði mannréttindamála og ég þykist vita að hæstv. ríkisstjórn hafi fengið þau einnig. Eru þeir ekki stoltir af því að fá umvandanir og áhyggjur úr öllum áttum, frá sjálfri eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna, frá norsku mannréttindastofnuninni?

Hér segir í skeyti frá þeim, dagsettu 30. nóvember, það er mannréttindastofnunin við Óslóarháskóla:

„Norska mannréttindastofnunin hefur djúpar áhyggjur af breytingum sem eru til umfjöllunar á Alþingi hvað varðar stuðning við Mannréttindaskrifstofu Íslands.“

Undir þetta skrifar forstöðumaður norsku mannréttindaskrifstofunnar, og hver skyldi það vera? Jú, það er góðkunningi okkar, Geir Ulstein. Ætli hæstv. forsætisráðherra muni ekki eftir nafninu? Einhver virtasti lögmaður Norðmanna og sérfróður aðili í þjóðarrétti og mannréttindum og skrifaði m.a. bók um Svalbarðasvæðið, ef ég kann rétt að greina að þar sé sami maðurinn á ferðinni.

Mannréttindastofnunin við Essex háskóla tekur svo til orða, að þar hafi menn miklar áhyggjur af því sem þau hafi veitt athygli að til standi að breyta fjármögnunargrundvelli íslensku Mannréttindaskrifstofunnar. Undir það skrifar Sir Nigel Rodley.

Mannréttindaskrifstofan við Åbo háskólann lýsir sömuleiðis þungum áhyggjum í bréfi sem sent er 29. nóvember.

Raul Wallenberg stofnunin í Svíþjóð, einhver virtasta stofnun sinnar tegundar í heiminum lýsir sömuleiðis þungum áhyggjum, og þar eiga Íslendingar hauk í horni þar sem er Guðmundur Alfreðsson, prófessor og framkvæmdastjóri.

Þessar skeytasendingar og orðsendingar eru margar fleiri, auk þess sem má nefna að allir aðstandendur Mannréttindaskrifstofunnar með tölu, ef ég veit rétt, hafa sent Alþingi áskorun og bænaskrá um að þessu verði ekki breytt með þeim hætti sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn hefur lagt til. Ég geri ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra viti hverjir standa að Mannréttindaskrifstofunni, en kannski er ástæða til að rifja það upp. Maður hefði einhvern tíma látið sér detta í hug að menn gerðu eitthvað með það þegar slíkur hópur leggur þessu mikilvæga hugsjónastarfi lið, að þá sé eitthvað gert með það. Rauði kross Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Samtökin Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisskrifstofan, UNIFEM á Íslandi, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin ’78, Háskólinn á Akureyri og ugglaust fleiri sem ég man ekki eftir að telja upp, allir þessir aðilar skora á Alþingi að fara ekki út í þessar breytingar.

Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um þetta mál? Er hann stoltur af því að standa svona að verki? Mér finnst það dapurlegt að engin haldbær rök hafa verið færð fram fyrir þessum breytingum, engin. Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason er að vísu að reyna að útlista að eðlilegra sé að svona aðili sæki um, komi skríðandi á hnjánum inn teppið, heldur en að hann sé á föstum fjárlögum, þegar hver hugsandi maður sér að það er akkúrat öfugt. Það eru einmitt slík samtök sem þurfa að vera með rekstur sinn og fjárhag á þurru og ganga að stuðningnum vísum og þurfa helst að vera ósnertanleg hvað það varðar að þau geti óhrædd í skjóli þess fyrirkomulags sem um starfsemi þeirra er búið, gagnrýnt stjórnvöld ef svo ber undir, gagnrýnt framkvæmdarvaldið, veitt því aðhald, og því miður hafa tilefnin gefist hér á Íslandi ekki síður en annars staðar. Íslendingar hafa misstigið sig í mannréttindamálum á síðustu missirum, við höfum gert alvarleg mistök. Það fóru fram mannréttindabrot við setningu laga um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem nú hefur verið dæmt af Hæstarétti. Það er enginn vafi á því að í Falun Gong málinu urðu stjórnvöldum á stórfelld mistök, það vita allir. Þar voru brotin lög um persónuvernd og mönnum vísað frá landinu án nokkurra réttmætra ástæðna.

Herra forseti. Þetta er hneykslanlegt mál, þetta er ríkisstjórninni til skammar, og alveg sérstaklega dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni, hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni og hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddssyni til skammar. En þetta er líka hverjum einasta þingmanni sem greiðir þessari óhæfu atkvæði sitt, til hreinnar skammar og hana nú.

Virðulegur forseti. Síðan vil ég gjarnan ræða það sem kom upp í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, varðandi efnahagsaðstæður og brostinn grundvöll fjárlagafrumvarpsins. Og þá sakar ekki að hæstv. forsætisráðherra, yfirmaður efnahagsmála og yfirmaður Seðlabankans, og hæstv. fjármálaráðherra séu viðstaddir. Það er auðvitað kostulegt að vera að ræða þetta fjárlagafrumvarp við þær aðstæður að bæði varformaður fjárlaganefndar, bjargvætturinn sjálfur, Einar Oddur Kristjánsson, sem hefur, vel að merkja, haldið einu framsöguræðuna í þessari umræðu fyrir stjórnarliðið, og Seðlabankinn í áliti sínu frá því í gær segja: Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru brostnar, þær halda ekki.

Þær halda augljóslega ekki hvað það varðar að í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að gengisvísitalan verði um 125, en hún er komin niður í 115, og það munar nú um minna, og dollarinn kominn niður í 63 kr. Hvernig halda menn að horfurnar séu fyrir útflutningsgreinar sem framleiða að verulegu leyti eða selja afurðir sínar í dollurum, sem menn voru að fá 110 kr. fyrir, fyrir tveimur árum eða liðlega það, en fá núna 63 kr. fyrir? Það eru mörg fyrirtæki sem selja svo til allar sínar afurðir annað hvort beint á Ameríkumarkað eða viðskiptamyntin er dollari. Við getum t.d. nefnt að í mjöliðnaðinum er allt lýsi selt í dollurum. Hvernig halda menn að loðdýraræktin fari að við þetta gengi? Hvernig halda menn að ýmsar greinar sjávarútvegsins fari sem fyrst og fremst selja afurðir sínar í dollurum, hvernig eru framtíðarhorfunar hjá þeim með hækkandi vöxtum og gengi á þessum nótum?

Svo kemur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og ræðst harkalega á Seðlabankann. Það væri auðvitað fróðlegt og mér finnst nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra svari því hvort hann sé sammála eða ósammála viðbrögðum Seðlabankans við þeim aðstæðum sem nú blasa við í efnahagsmálum. Því það á ekki að vera feimnismál að ræða hvort menn eru sammála eða ósammála viðbrögðum Seðlabankans, þó að hann sé að sjálfsögðu sjálfstæður í störfum sínum. Það snýst ekki um það að menn ætli að fara að segja honum fyrir verkum en menn geta haft skoðun á því.

Auðvitað er alveg ljóst að Seðlabankinn telur sig kominn algerlega upp að vegg vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og þar er sérstaklega tvennt sem hrekur Seðlabankann út í það horn sem hann upplifir sig í, þ.e. tvennt af hálfu stjórnvalda. Það eru hinar gríðarlegu stóriðjufjárfestingar og það eru skattalækkanirnar. Þetta er algerlega skýrt þegar lesnar eru kjarnasetningarnar í skýrslu Seðlabankans frá í gær. Þessu er þjappað saman í innganginum þannig að það þarf í sjálfu sér ekkert að lesa textann allan.

Þar segir með leyfi forseta:

„Frá því að Seðlabankinn birti síðustu verðbólguspá sína í júní sl. hafa verðbólguhorfur til lengri tíma litið versnað töluvert. Má einkum rekja það til meiri vaxtar innlendrar eftirspurnar en áður var reiknað með. Frá því júníspáin var gerð hefur ýmislegt orðið til þess að kynda undir vexti eftirspurnar. Stóriðjuáformin hafa enn færst í aukana, á sama tíma og aðgangur almennings að lánsfé hefur orðið mun greiðari en áður og vextir verðtryggðra húsnæðislána til langs tíma lækkað. Einnig hefur verið boðað að áformum um lækkun skatta á næstu árum verði framfylgt, sem enn frekar mun auka ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu. Horfur eru á að þessar aðstæður muni leiða til þess að framleiðsluspenna verði meiri en áður var talið og muni kynda undir verðbólgu síðari hluta spátímabilsins ef ekkert verður að gert.“

Síðan segir í textanum: „Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 9,5%“ — verulega autt frá fyrri spám — „og þjóðarútgjöld um tæplega 11%.“

Hringir það engum bjöllum þegar svona stórar breytur í dæminu stökkva upp um u.þ.b. 10%? Verðbólguspárnar eru upp um 1% frá því sem var í sumar, bæði ársspáin um 0,5% og spáin til næstu tveggja ára um heilt prósent. Hvað segir svo? Jú, það segir: „Hins vegar eru taldar meiri líkur á að verðbólgu sé vanspáð en að henni sé ofspáð til lengri tíma litið.“ Seðlabankinn er á diplómatísku máli að reyna að segja okkur, þegar því er svo bætt við sem segir hér um ónógt aðhald, að þessar forsendur eru brostnar. Þær halda ekki. Verðbólgan er á uppleið og það eru meiri líkur en minni á því að henni sé vanspáð, þ.e. hún verði meiri, auðvitað, það blasir við af öllum þessum tölum.

Ríkisstjórnin með stóriðjustefnunni og skattalækkununum er að hella hér olíu á eldinn. Það er ekki hægt að lesa álit Seðlabankans öðruvísi en að fá það út. Meginskýringarnar eru dregnar hér saman í kjarnagreininni í inngangi kaflans. Svo er það þriðji aðilinn sem hellir olíu, eða við gætum þess vegna sagt bensíni, á eldinn, bankarnir, með því að moka út lánsfé með þeim hætti sem þeir gera. Hvað á þá Seðlabankinn að gera? Ég get verið sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um það, og það eru sjálfsagt fleiri, að þær aðstæður sem blasa núna við útflutningsgreinunum og samkeppnisgreinunum eru skelfilegar. Það er ekkert sem átti að koma mönnum á óvart. Því var nákvæmlega spáð að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna yrðu þessi og þau verða á kostnað samkeppnisskilyrða hins almenna atvinnulífs. Það gengur nákvæmlega eftir eins og margir hagfræðingar sáu fyrir, þeir sem á annað borðu þorðu eða gátu tekið til orða eins og hugur þeirra stóð til þegar þau áform voru til umræðu hér. Það gengur allt eftir.

Herkostnaðurinn af þessum miklu fjárfestingum er sem sagt borinn núna af öðru atvinnulífi. Í reynd er Seðlabankinn að ganga í lið með ríkisstjórninni við að ryðja út, búa til pláss fyrir stóriðjufjárfestingarnar með því að ryðja öðru út. Það verður samdráttur í öðru atvinnulífi sem á þá að reyna að halda aftur af verðbólgu og þenslu í landinu. Þetta er að gerast.

Sjávarútvegsfyrirtækin rifa nú seglin eins og þau mögulega geta og eru bara að reyna að lifa af. Hvað er samkeppnisiðnaðurinn að gera? Hann er hættur að fjárfesta innan lands, fjárfestingar hans fara nú fram erlendis ef þær eru einhverjar, og það er verið að skoða það í fleiri en einu og fleiri en tveimur stórum iðnfyrirtækjum í landinu að úthýsa starfsemi, fara með hana úr landi. Eðlilega, þessar aðstæður eru svo bersýnilega óhagstæðar að það hálfa væri nóg.

Ferðaþjónustan á eftir að bíta í súrt epli ef gengið verður áfram með þessum hætti, vaxtakostnaðurinn eins og nú stefnir í. Hæstv. ríkisstjórn verður að horfast í augu við afleiðingar af eigin stefnu. Það þýðir ekkert að skamma aumingja Seðlabankann. Hvað á hann að gera? Menn hafa talað hér um bindiskylduna, að hann hafi gert rangt í því að lækka hana. Það kann vel að vera að það hefði einhver áhrif hér á peningamarkaðinn en það er ekki það stóra í þessu. Þegar bankarnir ganga svo frjálslega í erlent lánsfé og lána það út með þeim ágætum sem raun ber vitni, kannski á ívið lægri vöxtum en þeir taka það á, hefur það kannski ekki mikil áhrif þótt Seðlabankinn reyni eitthvað með slíkum aðferðum.

Seðlabankinn starfar samkvæmt verðbólgumarkmiðum. Það er misskilningur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni ef hann heldur að Seðlabankinn eigi að reyna að hafa áhrif á gengið. Það er beinlínis bundið í lög að nú á hann ekkert að skipta sér af því. Hann á eingöngu að reyna að halda hér verðstöðugleika, halda verðbólgu innan þeirra marka sem hann hefur sett sér í framhaldi af nýjum lögum, þ.e. 2,5% +/- ákveðin viðmiðunarmörk sem eru 1% gólf og 4% þak eins og þetta stendur núna. Innan þessara marka á Seðlabankinn umfram allt að reyna að halda verðlaginu og hann hefur fyrst og fremst eitt stórt stýritæki til þess, vaxtaákvarðanir, þá að svo miklu leyti sem þær virka í nútímanum.

Ég held að Seðlabankanum sé mikil vorkunn, og alveg sérstaklega þegar hann er aleinn. Hann er aleinn og rær meira og minna á móti straumi frá öðrum, frá ríkisstjórninni og frá bönkunum. Það blasir við hverjum manni að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar að undanförnu og framganga bankanna er mjög mótdræg tilraunum Seðlabankans til að sinna hlutverki sínu eins og honum ber lögum samkvæmt. Það er bara þannig. Það liggur algerlega fyrir, og hef ég þó ekkert nefnt þann þáttinn í þessu sem kannski er á sinn hátt alltaf vanmetinn og mjög stór, hinn sálræna, þ.e. það andrúmsloft sem er skapað í þjóðfélaginu með þeim skilaboðum sem koma frá stjórnvöldum og öðrum slíkum aðilum hverju sinni. Hvað á almenningur að halda þegar góðærisvaðallinn stendur upp úr mönnum alveg endalaust og það er ýtt undir það með öllum tiltækum ráðum að menn bara trúi á gullöld og gleðitíð? Staðreyndin er auðvitað sú að það eru verulegar ástæður til að hafa áhyggjur af því að hve miklu leyti neysluaukningin í landinu er fjármögnuð með nýjum skuldum, að við erum að ráðstafa tekjum framtíðarinnar í sívaxandi mæli með því að lífskjörin í dag eru tekin að láni. Við erum að reka þjóðarbúið út á við með dúndrandi viðskiptahalla og innan við helmingur af honum er frá stóriðjufjárfestingunum, 40% kannski. Afgangurinn er fyrst og fremst eyðsla, því miður, ekki fjárfestingar í nýjum framleiðslutækjum eða öðrum slíkum hlutum sem við getum reiknað með að skili miklum arði síðar meir, heldur alveg þvert á móti.

Hér var ágæt umræða í gær, svo langt sem hún náði á hálftíma, um skuldir heimilanna og fyrirtækjanna. Það eru alveg ískyggilegar tölur sem við okkur blasa þar og þróunin í þeim efnum er rosaleg. Ekki batna horfurnar núna með nýju þjóðahagsspánni frá Seðlabankanum og var þetta þó ekkert sérstaklega glæsilegt í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Hvað sagði þar um útgjaldaaukningu heimilanna? Ekkert lát virðist á útgjaldaaukningu heimilanna, með leyfi forseta. Ekkert lát virðist á útgjaldaaukningu heimilanna, sagði fjármálaráðherra í sinni eigin þjóðhagsáætlun í haust og var hann þá ekki farinn að taka tillit til útlána bankanna, hinna nýju svokölluðu húsnæðislána bankanna.

Þetta eru þeir hlutir, herra forseti, sem alvarlegastir eru í þessu. Mér finnst satt best að segja ábyrgðarleysið sem einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar núna við afgreiðslu þessara fjárlaga með endemum. Það endurspeglast líka í áhugaleysi þeirra á því að mæta hér og standa fyrir máli sínu, að hérna skuli ekki hafa verið haldin einhver almennileg framsöguræða fyrir áherslum ríkisstjórnarinnar í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaganna. Flutt var einnar mínútu ræða.

Svo kom ræðan frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem er svartasta ræðan sem hér hefur verið flutt í dag. Menn tala um að við stjórnarandstæðingar málum hlutina dökkum litum og séum svartsýn. Hvað má segja um hv. þm. Einar Odd Kristjánsson? Hann spáði í raun og veru atvinnulífinu meira og minna hruni ef svo héldi sem horfði og úthúðaði Seðlabankanum fyrir það sem hann var að gera, að hækka gengið í gegnum þessar harkalegu vaxtabreytingar sínar, þá ákvörðun að hætta gjaldeyriskaupum núna um áramótin og að hafa lækkað bindiskylduna í fyrra.

Maður veltir því vissulega fyrir sér af hverju Seðlabankinn haldi þá ekki bara áfram að reyna að kaupa gjaldeyri og eiga hann þá í handraðanum þegar og ef, sem því miður örugglega verður, flótti brestur á í liðinu þegar þeir sem taka stöðu með krónunni núna ákveða að losa um. Spár ganga út á að það verði um ár í mesta lagi sem þetta haldi og þar eru stórar fjárhæðir á ferð. Hvað verður þá? Það eru allar líkur á því að breytingarnar geti orðið enn þá harkalegri en þær voru síðast, við séum nær því að tala um ástand af því tagi sem var 1987–1988.

Herra forseti. Tímans vegna og af ýmsum ástæðum ætla ég að geyma mér annað sem ég ætlaði að ræða hér við þessa 3. umr. fjárlaga og ljúka hérna máli mínu með von um að hæstv. forsætisráðherra sem heiðrar okkur með nærveru sinni geti tekið þátt í umræðunni og við fáum að heyra mat hans á stöðunni.

Ég endurtek alveg sérstaklega að ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra svari því hvernig hann meti viðbrögð Seðlabankans fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hvernig telur hann að atvinnulífið komi út úr því gengisstigi sem nú blasir við okkur og spár eru um að eigi jafnvel eftir að þróast þannig að gengisvísitalan lækki enn frekar og krónan styrkist jafnvel umfram það sem nú er?