131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:40]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er mikill kraftur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Það er mikið um að vera og vissulega reynir mikið á efnahagsstefnuna og efnahagslífið. Að meginhluta til er það þó jákvætt. Hinar miklu fjárfestingar í atvinnulífinu og þá ekki síst í stóriðju eru að sjálfsögðu jákvætt merki um það sem er að gerast hér á landi, eykur fjölbreytni í atvinnulífinu og skýtur nýjum stoðum undir efnahagslíf okkar og sjálfstæði. Ég botna ekkert í því af hverju hv. þm. getur aldrei séð neitt jákvætt við það. Hann sér þetta fyrst og fremst sem vandamál en það verður hann að eiga við sjálfan sig og sinn flokk. Þar erum við hreinlega ósammála og það verður að vera svo. Ég ætlast ekki til þess að hv. þingmaður verði sammála ríkisstjórninni í þeim efnum þótt ég hafi aldrei botnað neitt í þeirri stefnu sem hann mælir fyrir. Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta er meginrótin fyrir þeim mikla hagvexti sem er hér á landi, verður á næstu árum og hefur verið undanfarin ár. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir þessari stefnu í þeim megintilgangi að auka kaupmátt almennings og til þess að skjóta sterkari stoðum undir velferðarkerfi okkar. Hvernig á að gera það með öðrum hætti átta ég mig ekki á og veit ekki hvernig hv. þm. vill gera það.

Hvað varðar skattstefnuna lítur hann jafnframt á það sem vandamál. Hann lítur á það sem vandamál að ráðstöfunartekjur almennings sem, alveg rétt, munu aukast vegna skattalækkana og þá sérstaklega á árinu 2007. Á því ári er gert ráð fyrir að meginþungi þessara framkvæmda verði yfirstaðinn og þess vegna sé rétt að meginþungi breytinga í skattkerfinu komi til framkvæmda þá. Það er alveg rétt að það mun auka ráðstöfunartekjur almennings, þá sérstaklega fjölskyldna með millitekjur, þeirra fjölskyldna sem eru með hvað mesta greiðslubyrði, m.a. vegna húsnæðismála. Skoðun ríkisstjórnarinnar er sú að það sé mun betra fyrir efnahagslífið að ráðstöfunartekjur almennings aukist með skattalækkunum en með samsvarandi launahækkunum og það valdi lægri verðbólgu. En ég hef tekið eftir því í málflutningi hv. þingmanns að hann hvatti til þess í sambandi við launahækkanir til kennara sem eru eins og aðrar þjóðfélagsstéttir alls góðs maklegir að sem flestir færu í kjölfar þeirra og að launahækkanir yrðu sem mestar. Það er sem sagt allt í lagi að hans mati að auka ráðstöfunartekjur umfram getu þjóðarbúsins með launahækkunum, með prósentuhækkunum sem að sjálfsögðu munu valda verðbólgu, en ekki með skattalækkunum. Um þetta erum við jafnframt ósammála.

Við teljum í ríkisstjórninni að miklu betra sé að auka ráðstöfunartekjur með þessum hætti og þótt Seðlabankinn sé með viðvörunarorð í því sambandi verður að taka það inn í dæmið hvað gerst hefði á vinnumarkaði og hvað mundi gerast þar ef ekki kæmi til skattalækkana, hvort ekki sé líklegt að það yrði þess valdandi að það yrðu mun meiri kröfur um launabreytingar. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að auka ráðstöfunartekjur almennings og það sem liggur þessu til grundvallar af hálfu ríkisstjórnarinnar er að það sé mun betra að gera það með þessum hætti og tryggja þar með frekar hóflegar launabreytingar í landinu sem stuðli að því að verðbólga verði minni.

Hv. þingmaður talar um að það sé ónógt aðhald. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er mikið aðhald í fjárlagafrumvarpinu og ég hef ekki orðið þess var að það séu uppi miklar tillögur á Alþingi og ekki heldur af hálfu stjórnarandstöðunnar að draga úr útgjöldum í fjárlagafrumvarpinu. Ég hef ekki séð neinar tillögur um það. Ég hef hins vegar séð tillögur um að auka útgjöldin. Það er vissulega rétt að það eru óskir um aukin útgjöld úr öllum áttum og það er hlutverk okkar sem viljum stunda ábyrga fjármálastjórn, hvort heldur þeir styðja ríkisstjórnina eða eru í stjórnarandstöðu, að standa gegn ýmsum kröfum og leita leiða til að ná sanngjarnri niðurstöðu í fjárlagafrumvarpinu og fjárlögunum. Það er alveg ljóst að í fjárlagafrumvarpinu er veruleg aukning til velferðarmála og menntamála, málaflokka sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á og hefur ávallt gert. Við gerum okkur vel grein fyrir því að það væri betra að draga úr útgjöldunum efnahagslega séð en það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir velferðarkerfið og menntakerfið og við höfum ekki séð möguleika til þess.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að útlán bankanna vegna húsnæðismála hafa verið meiri undanfarið en menn gerðu almennt ráð fyrir, en við skulum jafnframt líta á jákvæðar hliðar þess máls. Ég býst við að það sé rétt að það megi áætla að útlán bankanna vegna þessa séu að undanförnu, þ.e. í september, október og nóvember, milli 80 og 90 milljarðar. Á sama tíma hafa uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði verið upp á rúma 50 milljarða. Stærsti hluti þessara lána hefur farið til þess að greiða upp önnur lán. Síðan hafa lánin farið til að greiða upp önnur lán í bankakerfinu, yfirdráttarlán, lán hjá lífeyrissjóðum og margvísleg vanskil. Þetta hefur gefið fólki tækifæri til þess að endurskipuleggja fjármál sín. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og gerir það að verkum að húsnæðismál eru að færast í það horf sem gengur og gerist í kringum okkur. Þetta er eitt af því jákvæða sem er að gerast á fjármálamarkaði okkar sem hefur verið að þroskast mikið og fólk hefur verið að læra á og er farið að umgangast með ábyrgari hætti en áður var. Auðvitað fylgja þessu hættur og það er ástæða til að vara við. Það er ástæða til að vara bankana við að ganga ekki of geyst fram í þessum efnum og það er ekki síður ástæða til að vara allan almenning við því að taka ekki þessi lán til að fjármagna neyslu, t.d. bílakaup, ég tek undir það. En ég gleðst yfir því að fólk skuli loksins hafa fengið tækifæri til að fjármagna íbúðir sínar með eðlilegum hætti eins og gengur og gerist í kringum okkur.

Hér hefur verið rætt um að nú séu forsendur fjárlaga brostnar. Það er alrangt. Það sem hefur gerst er að komið hefur fram spá frá Seðlabankanum sem gerir ráð fyrir meiri hagvexti en fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir. Hins vegar er sama spá byggð á því að stýrivextir Seðlabankans séu 7,25%, eru núna hækkaðir í 8,25% og mun verða þess valdandi að hafa margvísleg áhrif. Gera má ráð fyrir að það dragi úr hagvaxtarspá Seðlabankans vegna þessa. Seðlabankinn hefur ekki endurmetið spána þegar þessar ráðstafanir hafa verið framkvæmdar. Ráðstafanir Seðlabankans eru til þess fallnar að slá á verðbólgu, enda er það ætlunin með þeim og mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Ég hygg að það sé rétt að spá Seðlabankans fyrir árið í ár sé mjög nálægt því sem fjármálaráðuneytið spáði þannig að orðinn sé lítill munur á spá Seðlabankans fyrir árið í ár og því sem fjármálaráðuneytið spáði fyrr á þessu ári. Það er nú svo að spá er spá og engin ástæða til þess að ætla að spá Seðlabankans sé réttari en spá fjármálaráðuneytisins. Þvert á móti þarf að endurskoða spá Seðlabankans í ljósi þeirra ráðstafana sem Seðlabankinn hefur farið út í núna. Ríkisstjórnin sér enga ástæðu til að breyta forsendum fjárlaga vegna þess sem nú hefur komið fram hjá Seðlabankanum, enda hefur það aldrei verið gert. Ég skil ekki af hverju stjórnarandstaðan krefst þess allt í einu nú að farið verði að taka upp einhver allt önnur vinnubrögð í þessu sambandi. Það var alltaf byggt á þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar hér áður fyrr og síðan á spá fjármálaráðuneytisins eftir að efnahagsskrifstofa þess tók yfir þá starfsemi sem áður var hjá Þjóðhagsstofnun. Þannig hefur alltaf verið unnið og það er engin ástæða til þess að breyta því.

Hv. þingmaður spurði mig um málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu að það eru óbreyttar fjárveitingar til mannréttindamála. Meðan ég var í utanríkisráðuneytinu, í rúm níu ár, átti ég ágætt samstarf við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég veit ekki til þess að ég hafi sem utanríkisráðherra nokkurn tímann kvartað yfir því á opinberum vettvangi sem fram kom frá Mannréttindaskrifstofunni. Það er ekki þar með sagt að ég, frekar en aðrir, hafi verið sammála öllu því sem þar kom fram, enda ætlaðist ég ekki til þess. Ég tel mjög mikilvægt að þessi skrifstofa starfi. Hins vegar hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um breytingar. Ég man ekki betur en að þeir sem að Mannréttindaskrifstofunni standa hafi m.a. verið að tala um að flytja skrifstofuna til Akureyrar. Ég man eftir umræðum um það í utanríkisráðuneytinu. Fjármagnið til Mannréttindaskrifstofunnar kemur frá hinu opinbera og ekkert nema eðlilegt við það. Hins vegar er nauðsynlegt að fara vel yfir þessi mál og ég veit ekki hvað mönnum gengur til að vera með þessa óskaplegu svartsýni um framtíð þessarar skrifstofu. Utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið þurfa að sjálfsögðu að fara vel yfir það í samvinnu við það fólk og þær stofnanir sem hafa staðið að þessum málum en að halda því fram að þar með sé sjálfstæði skrifstofunnar ekki lengur fyrir hendi (Gripið fram í.) með því að fá fjármagn frá hinu opinbera. Fá ekki stjórnmálaflokkarnir fjármagn frá hinu opinbera? (SJS: Þeir fá það á fjárlögum, þeir þurfa ekki að skríða fyrir ráðherra.) Á fjárlögum? Hver er að tala um það, hv. þingmaður, að skríða þurfi fyrir ráðherrum? Ætlar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að halda því fram að þeir peningar sem voru á fjárlögum samgönguráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins meðan hann var landbúnaðarráðherra og samgönguráðherra, að fólk hafi almennt þurft að koma inn á skrifstofu hans og skríða fyrir honum út af þeim málum? Þurftu kannski þeir sem voru að biðja um peninga til samgöngumála að koma til samgönguráðherrans og skríða fyrir honum út af því? Hvers konar málflutningur er þetta? (SJS: Við erum að tala um óskiptan lið sem ráðherrann hefur einn vald á.) Ég veit alveg hvað verið er að tala um. (SJS: Þá skaltu ekki reyna að snúa út úr.) Ég er ekkert að snúa út úr, hv. þingmaður, en það er ósæmilegt hvernig hv. þingmaður talar um þessi mál, og í hvert skipti sem hann kemur upp segir hann mönnum að skammast sín. Ég held að hann sjálfur ætti að fara að skammast sín eitthvað fyrir málflutning sinn á Alþingi oft og tíðum.

Það er engin ástæða til að ræða þessi mál með þeim hætti sem hv. þingmaður hefur gert og síst málinu til framdráttar. Það þarf að sjálfsögðu að hafa góða (SJS: Hver eru rökin fyrir …?) sátt um þessi mál. Það hefur ríkt ágæt sátt um þau í tíð núverandi ríkisstjórnar og ég sé enga ástæðu til þeirrar bölsýni og svartsýni sem kemur fram í máli hv. þingmanns um málið frekar en bölsýni hans og svartsýni í efnahagsmálum þjóðarinnar.