131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:09]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er beinlínis rangt hjá hv. þm. Það hefur alltaf legið fyrir og því var alltaf haldið fram að hér væri um að ræða 1 milljarð. Það hefur aldrei neitt annað verið samþykkt af ríkisstjórninni. Þetta hefur alltaf legið fyrir. (Gripið fram í.) Nú liggur fyrir að þetta (Gripið fram í.) mun verða 1,3 milljarðar á næsta ári. Það er með ólíkindum hvernig hv. þingmaður reynir alltaf að snúa út úr þessu máli. Sköpuð hafa verið skilyrði til þess hér á landi að bæta kjör öryrkja, sem betur fer, en það er alveg ljóst … (HHj: … þeir dæma ykkur í Hæstarétti, Halldór Ásgrímsson. Þeir dæma ykkur í Hæstarétti til að greiða mannsæmandi kjör.) Það er alveg ljóst að ef hv. þingmaður hefði fengið sínu framgengt í efnahagsmálum, miðað við hvernig flokkur hans hefur talað, þá hefðu þessi skilyrði aldrei skapast.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli á því að þegar umræðutími er einungis ein mínúta og menn vilja fá svar við spurningum sínum þá er skynsamlegra að vera hógvær.)