131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:45]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði hælt hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að hafa orðið við ósk minni hlutans í nefndinni um að kalla fulltrúa Seðlabankans á fund nefndarinnar þó það hafi ekki getað orðið fyrir 2. umr. Ég geri það aftur, ef einhver misskilningur er á ferð, og hæli hv. formanni fyrir að hafa þó orðið við þessari ósk minni hlutans í nefndinni, því eins og við höfum séð í dag og höfum oft upplifað á þingi þá er það því miður orðin venja hjá hv. meiri hluta á Alþingi að taka lítið tillit til þess hvað minni hlutinn segir, vill eða gerir.

Aftur á móti get ég ekki hælt hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir það álit sem sett var fram á fjárlögunum á fundi nefndarinnar eins og gengið var frá því 23. nóvember 2004, einfaldlega vegna þess að ég tel að efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki gert það sem henni ber að gera, þ.e. að fara yfir skattatillögur, áhrif skattalagabreytingar á tekjur ríkissjóðs eins og segir í þingsköpum, og einnig að fara yfir tekjuhluta frumvarpsins. Það eina sem segir í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er, að þarna séu ákveðnar tekjur inni og þær þróist með þessum hætti en ekki er á nokkurn hátt reynt að leggja mat á þær. Það verður þó að hæla nefndinni fyrir að hún er ekkert að fela gjaldahækkanir sem þarna voru komnar fram. Hún talar um að tekjur af umsýslugjaldi fasteigna verði 280 millj. kr., að bifreiðagjöld og ýmsar aukatekjur hækki um 320 millj. kr. og svo mætti áfram telja. En svo segir í áliti nefndarinnar að spá á þjóðhagsforsendum hafi ekki verið breytt frá framlagningu frumvarpsins og það er alveg rétt á þessum tímapunkti, en að nefndin skyldi ekki koma saman aftur með álit og senda fjárlaganefnd þegar Seðlabankinn var búin að heimsækja hana var óskiljanlegt.