131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:47]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hól til persónu minnar byggist sennilega á misskilningi, því mér fannst sjálfsagt að verða við þessu og ég áleit það ekki vera þakkarvert, þannig fannst mér einnig sjálfsagt að fá Seðlabankann til að ræða um nýja spá hans, þjóðhagsstærðir, og það var gert.

Hitt verð ég að segja að álit nefndarinnar byggir eiginlega á hvernig þetta hefur verið unnið hingað til, sem er einmitt það sem ég vil breyta, en það var ekki hægt að verða við því með svo stuttum fyrirvara, það var vandamálið. En ég reikna með að næsta haust muni nefndin taka þetta til nánari skoðunar eftir ábendingum frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Menn hafa talað mikið um 9,5% aukningu einkaneyslu, um gengi og margt fleira. Nú er það þannig að ákvörðun Seðlabankans um hækkun stýrivaxta breytir þessum forsendum, ella hefði sennilega komið inn einn tugur milljarða í tekjuauka af ríkissjóði eða jafnvel meira, og afgangurinn þá orðið snöggtum meiri en við ætluðum í dag og er hann þó nokkuð myndarlegur fyrir.

Það er ljóst, eins og Seðlabankinn hefur ítrekað, að þessar breytingar, þ.e. hækkun á stýrivöxtum, breyta spánni sem var verið að gera, þannig að hún er ekki lengur marktæk. Nú þyrfti Seðlabankinn að gera nýja spá miðað við þá ákvörðun sem hann tók og þá kemur eitthvað allt annað í ljós. Til dæmis varðandi gengisforsendur, menn geta haldið áfram að breyta fjárlagafrumvarpinu fram í rauðan dauðann, en það togast þá á við það markmið að hafa fjárlögin snemma á ferðinni, þannig að allir megi vita hver vilji ríkisvaldsins er. Og oft er það þannig að breytingar sem verða á forsendum virka bæði til aukningar á tekjum og gjöldum eða öfugt, og því helst mismunurinn oftast nær.