131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:51]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur sem tökum til máls við 3. umr. fjárlaga er nokkur vandi á höndum því að komið hefur fram hjá til að mynda talsmanni ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefndinni, þ.e. hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að forsendur fjárlaga séu gersamlega brostnar. Það kom einnig fram í útvarpsviðtali í morgun hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétri Blöndal, að aðgerðum Seðlabankans og tilkynningum sem komu frá Seðlabankanum í gær mætti líkja við að skútan hefði verið á leið í strand en aðgerðir bankans hefðu breytt kúrsinum þannig að ekki væri lengur hætta á að hún strandaði. Við erum í 3. umr. fjárlaga en helstu talsmenn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa gengið langt fram í að halda því fram að forsendur fyrir fjárlögum séu brostnar. Seðlabankinn gengur út frá því í spá sem birtist í gær að forsendurnar sem lagt var upp með 1. október sl. séu brostnar. Í því samhengi má taka sem dæmi að Seðlabankinn geri ráð fyrir að einkaneyslan aukist um allt að 100% frá því sem spáð var 1. október, samneyslan um 60% frá því sem spáð var í október, fjárfesting um 10% frá því sem spáð var í október, þjóðarútgjöld um allt að því 50% frá því sem spáð var í október, þ.e. aukningin … (Gripið fram í: Hann er búinn að breyta þessu.) Frá því í gær? (Gripið fram í: Já, …) Virðulegi forseti. Fulltrúi Seðlabankans tók fram í gær, í frammíkalli, að þau tæki sem Seðlabankinn hefur til að grípa inn í bíti það seint að ólíklegt sé … (PHB: Hann gerði það í morgun.) að þau hafi mikil áhrif á þessu ári. Virðulegi forseti. Við erum að ræða um fjárlög í 3. umr. við þær forsendur að flestir sem hafa tjáð sig um málin draga mjög í efa forsendurnar sem lagt var upp með 1. október sl. haldi. Í þeim veruleika ræðum við fjárlagafrumvarpið og þess vegna fór fram í dag talsverð umræða um að ástæða væri til að taka fjárlögin á ný inn til fjárlaganefndar til að ræða þessar forsendubreytingar, og þá fyrst og fremst til að þingið gæfi þau skilaboð frá sér að það taki fjárlögin alvarlega.

Það er gríðarlega stór ákvörðun að afgreiða fjárlögin frá þinginu við slíkar aðstæður, vitandi vits að forsendur þeirra séu brostnar. Þetta er afar sérstök staða, og þessar forsendur verður að taka inn í þegar menn meta hvað sagt hefur verið um fjárlögin.

Kjarninn í gagnrýni Seðlabankans frá í gær er fyrst og fremst aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það er kjarninn í gagnrýninni sem þar kom fram og þess vegna grípur Seðlabankinn til jafnróttækra aðgerða og raun ber vitni, að hækka stýrivexti um 100 punkta sem Seðlabankinn hefur aldrei gert áður. Það eru skýr skilaboð um verðbólguna sem bankinn telur að sé hér undirliggjandi.

Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, draga það mjög skýrt fram í þessari umræðu hversu vandmeðfarin öll umræða um fjárlögin er, vegna þess að forsendur eru brostnar.

Í ræðu sinni í dag talaði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson um að hækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum mundu grafa undan útflutningsgreinunum, mundu í raun og veru valda kollsteypu hjá útflutningsgreinunum sem mundi hafa gríðarleg áhrif í för með sér fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt hagkerfi. Hann talaði þannig í dag að líklega hefur enginn sem hefur tjáð sig í 3. umr. fjárlaga komist með tærnar þar sem hv. þingmaður hafði hælana í þeirri svartsýnisspá sem hann hafði uppi um næsta ár í íslenska hagkerfinu. Hann benti hins vegar réttilega á að þær forsendur sem menn hafa núna í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. um gengið og gengisþróun, gera ráð fyrir að gengisvísitalan verði 125. Í dag var gengisvísitalan 115, og hún gæti jafnvel farið niður í 110. Þessar staðreyndir draga fram með skýrari hætti en flest annað hve stór og alvarleg mál eru á ferðinni og því er full ástæða til að fjárlaganefnd kalli fjárlagafrumvarpið á ný inn til fjárlaganefndar.

Ég vil hins vegar segja það, virðulegi forseti, að í þessari umræðu hafa hv. þingmenn Samfylkingarinnar farið mjög vandlega yfir hlutina. Þeir hafa gert skýra grein fyrir, og goldið varhuga við að afgreiða fjárlög frá þinginu við þessar aðstæður, það sé mikill ábyrgðarhluti og lýsi því að menn taki afgreiðslu fjárlaga ekki mjög hátíðlega ef þeir treysta sér til að afgreiða fjárlögin á þessum forsendum.

Hv. þingmenn hafa einnig farið þannig yfir einstaka liði að ég vil leyfa mér að taka undantekningalaust undir það sem frá þeim hefur komið. En megintilgangur minn með því að koma hér í ræðustól, virðulegi forseti, í 3. umr. fjárlaga er fyrst og fremst að draga fram þá sérstæðu ákvörðun sem virðist hafa verið tekin bæði við undirbúning fjárlaga hjá hæstv. dómsmálaráðherra, þ.e. að leggja til að látið verði af beinum framlögum til Mannréttindaskrifstofu Íslands og síðan sú ákvörðun utanríkisráðherra að fylgja í kjölfarið á milli umræðna með sömu ákvörðun. Þetta hefur verið gagnrýnt af svo til öllum sem láta sig mannréttindi varða og í fylgiskjölum sem fylgja með minnihlutaáliti frá 1. minni hluta fjárlaganefndar eru dregnar fram áskoranir og ályktanir frá fjölmörgum félögum og stofnunum sem láta sig þetta varða.

Hér hefur einnig verið dregið fram að Mannréttindaskrifstofan hefur verið notuð af stjórnvöldum til að draga fram hve gott ástandið sé hér í mannréttindamálum og að stjórnvöld þurfi í raun og veru að þola aðhald í þeim málefnum, hún sé með sjálfstæða skrifstofu sem fari yfir frumvörp og geri athugasemdir við það sem miður kann að fara í áætlunum ríkisstjórnarinnar og þeim frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi.

Þess vegna er hér um afar mikilvægt málefni að ræða, ekki aðeins að það sé sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld þurfi að undirgangast aðhald af þessum toga heldur er hér einnig um alþjóðlegt samstarf að ræða. Mannréttindaskrifstofan hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi sem er í raun og veru sett í uppnám með þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið, að láta af beinum framlögum Alþingis til þessarar skrifstofu og færa í stað þess samsvarandi framlög undir ráðherrana og eiginlega gefa í skyn að Mannréttindaskrifstofan þurfi að eiga allt sitt undir þeim. Þetta er talið verða til þess að sjálfstæði skrifstofunnar skerðist.

Það er ekki síður alvarlegur hlutur ef lengi hefur staðið til að láta af þessum framlögum að skrifstofunni sé ekki gert kleift að undirbúa þær breytingar á þann hátt að hún geti þá sótt á önnur mið um fjárframlög. Þetta skiptir miklu máli því að það er alveg ljóst að ef það gerist núna um áramót að skrifstofan fái ekki frekara fjármagn þá leggst starfsemi hennar væntanlega niður sökum þess að hún hefur engan tekjugrundvöll og þar af leiðandi getur hún ekki greitt laun og ekki staðið undir þeim verkefnum sem hún nú stendur í. Það er því ekki aðeins að það sé mjög alvarlegur hlutur að ætlast til þess að skrifstofa eins og Mannréttindaskrifstofa eigi allt sitt beint undir ráðherra heldur ekki síður að ef sú hefur verið ætlunin að gefa þá ekki skrifstofunni aðlögunarfrest a.m.k. til þriggja ára til að vinna sig inn í aðrar leiðir hvað varðar fjármögnun.

Því verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að sú umræða er athyglisverð sem hér fór fram fyrr í dag eða núna seinni partinn við hæstv. núverandi forsætisráðherra, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, sem ég taldi og hef talið að væri haukur í horni hvað varðar framlög til Mannréttindaskrifstofunnar, enda ritaði hann fyrir nokkrum árum minnisblað til ríkisstjórnarinnar þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Þetta fyrirkomulag, þ.e. opinbert framlag frá dómsmálaráðuneytinu, er ekki í samræmi við það sem tíðkast annars staðar. Mikilvægt er að undirstrika sjálfstæði skrifstofunnar og styrkja starfsemi hennar einkanlega sem rannsóknarstofnunar og almennt til eflingar mannréttinda.“

Það er eins og hæstv. forsætisráðherra hafi algerlega gleymt þessum orðum eða algerlega snúist á sveif með hæstv. utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra og þeim hugmyndum sem þaðan koma vegna þess að hann sagði áðan í umræðunni að það að skrifstofan eigi núna undir ráðherrana hafi ekkert með sjálfstæði hennar að gera. Það er þveröfugt við það sem kemur fram í minnisblaði frá ráðherra til ríkisstjórnarinnar á árinu 1997. Því vöktu þessi ummæli hans athygli mína og þegar reynt var að ganga á hæstv. forsætisráðherra og óska frekari skýringa á þeim viðhorfum sem hann lét falla í ræðu sinni í dag að það að skrifstofan þurfi að sækja undir hæstv. ráðherra hafi ekkert með sjálfstæði hennar að gera, þá var það þveröfugt við það sem hann sagði í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar líklega á árinu 1997.

Á sama hátt voru orð hæstv. forsætisráðherra þegar hann sagði að upp hafi komið hugmyndir um að færa skrifstofuna til Akureyrar, að það skipti máli í þessu samhengi, þá eru það, virðulegi forseti, aðeins hugmyndir sem ég held að hafi fyrst og fremst komið frá Háskólanum á Akureyri og aldrei verið opnað á það sérstaklega af Mannréttindaskrifstofunni að flytja til Akureyrar. Það er því að minni hyggju í besta falli ómerkilegur útúrsnúningur að reyna að snúa sig út úr þessari umræðu á þann hátt. Ég verð því að lýsa mikilli furðu, virðulegi forseti, á ummælum hæstv. forsætisráðherra í dag og er alveg augljóst að þau eru í algjörri andstöðu við sjónarmið sem hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, sendi ríkisstjórninni líkast til á árinu 1997 og varðaði rekstur Mannréttindaskrifstofu á árunum 1998 og 1999.

Í sama minnisblaði sagði einnig, með leyfi forseta:

„Enn fremur er lagt til að nýtt fyrirkomulag varðandi opinberan fjárstuðning við rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands, þ.e. að hann greiðist ekki lengur af dómsmálaráðuneyti„ — eins og var á árinu 1997 — „heldur þiggi skrifstofan fjárveitingu beint frá Alþingi í stað handhafa framkvæmdarvaldsins, þ.e. samtals kr. 15 milljónir sem lagt var til á árinu 1997.“ — Og er þá vísað til fundar sem haldinn var 15. maí í utanríkisráðuneytinu.

Þannig að þau orð sem hæstv. utanríkisráðherra lét á blað á þeim tíma, núverandi hæstv. forsætisráðherra, virðast ekki hafa neina merkingu í umræðunni í dag.

Þetta er afar sérstakt vegna þess að í dag var gengið á hæstv. forsætisráðherra og hann krafinn svara um þessa kúvendingu í málflutningi sínum. Líkast til má draga þá ályktun að hann hafi verið knúinn til fylgilags við hugmyndir hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra, en ég átti þó von á því í umræðunni í dag að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að hann mundi gera tilraun til þess að sveigja hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra frá þeirri villu sem þeir viðkomandi hæstv. ráðherrar eru í með því að leggja fram þær hugmyndir og tillögur sem þeir hafa gert.

Hann reyndi ekki á nokkurn hátt að verja sig í þessum efnum, hann gerði enga tilraun til þess að lýsa því yfir að hann muni reyna að beita sér fyrir breytingu, hann gerði ekkert sem benti til þess að hann mundi standa við hin stóru orð sem hann lét frá sér fara á árinu 1997. Vissulega er spurning, virðulegi forseti, hvaða mark eigi að taka á slíkri kúvendingu, einkanlega þar sem engar skýringar koma fram og jafnvel voru hér í ræðustólnum færð rök að algerlega gagnstæðum sjónarmiðum en hann setti fram á árinu 1997. Það er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra skuldar þinginu skýringar á þeirri kúvendingu sem hér hefur orðið á afstöðu hans aðrar en þær að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beygt hann til hlýðni. Varla hefur stóll forsætisráðherra verið svo dýru verði keyptur að hæstv. forsætisráðherra kyngi öllu því sem hann hefur sagt fyrr á árum. En það er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra skuldar skýringu á þessari kúvendingu í afstöðu sinni.

Virðulegi forseti. Að lokum ætla ég að leyfa mér að taka undir sjónarmið sem fram komu í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að það sé með ólíkindum við þær aðstæður sem við nú búum við og við aðstæður þar sem ríkisstjórnin ætlar sér að svíkja samkomulag við öryrkja, að við skulum ætla að eyða 800–1.000 milljónum í að reyna að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er með ólíkindum að þessi hugmynd hafi komist á flug og það er með ólíkindum að menn ætli að fylgja því eftir.

Við hljótum að spyrja hvert annað og við hljótum að spyrja þá sem standa fyrir þessum hugmyndum: Er það hugmynd okkar að við ætlum að fylgja algerlega sjálfstæðri utanríkisstefnu og jafnvel að fara gegn utanríkisstefnu Bandaríkjamanna? Er það hugmynd okkar að við ætlum að hafa frumkvæði og marka ný spor í alþjóðamálin? Eða á hvaða ferðalagi erum við?

Eins og menn hafa rætt á hinu háa Alþingi þurfti varla annað en símtal að vestan til þess að taka ákvörðun um að styðja innrásina í Írak. Halda menn að það að við fáum sæti í öryggisráðinu muni gera það að verkum að við förum algerlega nýjar leiðir í utanríkispólitík? Það hvarflar ekki að nokkrum einasta manni. Og að við ætlum að eyða 800–1.000 milljónum við þessar aðstæður í baráttu fyrir þetta sæti er með hreinum ólíkindum. Það er alveg kristaltært að þeir sem ganga með þessa drauma í maganum verða að gefa miklu betri skýringar á því á hvaða ferðalagi þeir eru. Þetta hefur verið eitthvert gæluverkefni fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, núverandi forsætisráðherra, og það er mitt viðhorf, og ég tek undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að ég held að það sé mikilvægt að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á þeim sem ganga með slíkar hugmyndir í maganum og ætla að berjast fyrir þeim út í hið óendanlega. Einhver verður að hafa vit fyrir þessum mönnum. Við höfum ekki haft neitt fram að færa í utanríkispólitík hingað til, þó vel kunni að vera að þar geti orðið breyting á, sem réttlætir það að við eyðum þessum fjármunum í þá baráttu.

Við höfum heldur ekki þá stöðu í alþjóðastjórnmálum að geta ætlast til þess að við munum leika lykilhlutverk í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vel má vera að þetta sé skemmtilegur og ánægjulegur draumur en að ætla að eyða þessum fjármunum í þetta þegar í fyrsta lagi innlendar bankastofnanir og greiningardeildir gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðhaldsleysi í fjármálum, öryrkjar sækja á ríkisstjórnina vegna þess að hún sé að svíkja samninga, svo ekki sé minnst á það að taka eigi 8 millj. af Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að forgangsröðunin er slík að ég vil leyfa mér að taka undir með varaformanni fjárlaganefndar að Alþingi verður að bera gæfu til þess að taka fram fyrir hendurnar á þeim mönnum sem ganga með þá drauma í maganum að leika lykilhlutverk í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.