131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:37]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum um að við eigum að reyna að bæta vinnubrögðin eins og við getum. Það á að sjálfsögðu við um áætlanagerð innan ársins gagnvart einstökum stofnunum og vinnu ráðuneytanna í því efni. Það er ákveðið verklag á þessu núna. Fjármálaráðuneytið kemur skilaboðum til ráðuneytanna um hvaða stofnanir þeirra eru ekki alveg á réttu róli með útgjöld sín og það er ráðuneytanna að bregðast við því og stofnananna að sjálfsögðu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana.

Auðvitað er til í dæminu að einhvern tíma sé einhvers staðar vitlaust áætlað. Það reynum við að gera upp í fjáraukalögum, eins og þekkt er, eða þegar búið er að koma viðkomandi rekstri á rétt ról og sýnt er að hann verður innan rammans í framtíðinni. En stundum þarf að gera meira en það.