131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:43]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að rifja upp þann landlæga misskilning, sem Samfylkingin virðist ekki geta útrýmt, að gjaldfærsla skuldbindinga sé það sama og greiðslur úr ríkissjóði. Þessi 20 milljarða kr. tala er þannig til komin. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það.

En auðvitað ber okkur öllum að reyna að auka aðhaldið og agann í ríkiskerfinu. En í spám Seðlabankans og sumra fjármálafyrirtækjanna, ég nefni Seðlabankann sérstaklega hér, er bókstaflega gert ráð fyrir meiri hagvexti, meiri einkaneyslu og meiri umsvifum í þjóðfélaginu sem skapi ríkissjóði meiri tekjur. Mér finnst ekki undarlegt að bankinn geri þar með ráð fyrir því að útgjöld verði meiri en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. En okkar er að sjálfsögðu að reyna að halda okkur við það eftir því sem kostur er.

En svo kemur Samfylkingin og hvetur til aukinna launahækkana, jafnvel meiri en fjárlögin gera ráð fyrir. Á þá ekki líka að borga það?