131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:45]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er stutt síðan þessi skýrsla kom og ég er ekkert hissa á því að þingmanninum hafi ekki gefist tími til að rýna í allt sem þar stendur. Þar stendur m.a. að gera megi ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist mikið á næsta ári og 2006 og það mikið umfram útgjöldin að afgangurinn á næsta ári verði 5–10 milljörðum meiri en við erum að samþykkja hér í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég segi fyrir mig, það er nýtt ef stjórnarandstaðan er farin að telja að allt sem frá Seðlabankanum komi varðandi hagspár sé heilagur sannleikur. Hvernig geta menn fullyrt það? Við förum varfærnari leið. Það kemur í ljós þegar maður rýnir í þessar tölur að við erum ekki að reikna okkur 5–10 milljarða í viðbót í afgang sem væri sennilega niðurstaðan ef þetta þjóðhagsdæmi yrði reiknað upp á nýtt á forsendum Seðlabankans.